Þjónn, það er vírus í súpunni minni

9. mars 2006

Það er ekki gott að fá flensu. Ég er búinn að liggja og sofa og snýta mér til skiptis í þrjá daga og svefnherbergið mitt lítur núna út eins og leikmynd úr Aliens. Minnsti andardráttur veldur öldu gin- hala- og klaufaverkja og hvert skipti sem ég kyngi oggulitlu munnvatni er eins og að kyngja skapvondum, fullvöxnum ketti.

Ég brá mér niður í apótek í náttfötunum í dag til að sækja nauðsynjar. Hausverkurinn var svo öflugur að ég fetaði mig rammskakkur eftir veggjunum þangað inn og þegar ég loksins fann afgreiðslukonu hvíslaði ég hásri röddu "Hey, þú, hérna, áttu pilllur, ég verð að fá einhverjar pillur". Og ég fékk pillur.

Á heimleiðinni mætti ég Önnu og sagði eitthvað við hana - ég held að ég hafi spurt hana hvaða dagur væri. Svo fór ég inn í íbúð, át allar pillurnar, settist við píanóið og lék jarðarfararmarsinn hans Chopin þar til ég sofnaði. Mér fannst það viðeigandi.

Ég vona að þetta stanslausa bingókvöld vírusanna fari að taka enda.


Tjáskipti

Lindablinda

Veit ekki hvaða slefleiki þið þarna í vefheimum eruð að stunda........ flensugemsar. en ég fæ hins vegar alltaf gleðihroll - eða frygðar - skil ekki muninn lengur - þegar þú talar um píanóspil þín. Ekki slóstu feil með Chopin....... fór að leita að gömlum nótum.

Hugi

*dæs* já, og ég sem aldrei veikist. Hef ekki minnsta grun um hvaðan ég fæ þetta, kannski leiðist ónæmiskerfinu í mér og það er farið að búa til sína eigin vírusa. Já, ertu píanisti Linda?

hildigunnur

Næst geturðu prófað nocturne eftir Liszt, klikkar ekki heldur...

Hugi

Aaaah, satt Hildigunnur. Heyrðu annars stúlka mín, mig bráðvantar góða uppskrift að Créme Brulée og sagnir herma að þú kunnir þá bestu í bransanum?

Stefán Arason

Elsku karlinn! Þú hefur mína fyllstu samúð. Man einmitt eftir lýsingu Dadda, úr Dagbók Dadda (Adrian Moles Diary), þegar hann vaknaði einn daginn með kvef og að kyngja (kingja) kornflexinu var eins og að éta rakvélarblöð. Skemmtileg samlíking. Þú gætir líka farið að æfa einhver af Makrokosmosum Georgs Crumbs...eitt þeirra inniheldur bæði Chopin og svo helling af einhverju spúki og kúl stöffi. Nágrannarnir verða örugglega ánægðir með það.

Kalli

Afhverju verður mér hugsað til gömlu þvottavélarinnar hennar Önnu þegar ég les um þetta píanóspil? Dúett á píanó og þvottavél? Trés avant garde! Verst að Anna er komin með nútíma þvottavél í stað þessarar gömlu sem hafði... uhm, karakter?

Lindablinda

Jú, Hugi minn. Maður lærði víst á píanó í trilljón ár - flutti svo endalaust í íbúðir uppi á 50. hæð þannig að píanóið situr bara heima hjá foreldrunum og skilur ekkert í því af hverju ég kem ekki að leika oftar. En stundum er æft sig á eldhúsborðinu og luft piano klikkar ekki með góðum upptökum :-)

Hugi

Stebbi, dagurinn sem ég byrja að spila George Crumb er dagurinn sem nágrannar mínir brjótast inn í íbúðina til mín, troða mér ofan í píanóið, kveikja svo í því og hlæja á meðan ég brenn. Haha, mér líst snilldarvel á dúetta fyrir píanó og þvottavél - þvottavélin af efri hæðinni hefði t.d. hentað fullkomlega sem undirleikur við steðjakórinn. Og það er vissulega gaman að taka luftpíanó ef maður sé í stuði. Ég veit að nágrannar mínir eru byrjaðir að safna fyrir alvöru luftpíanói handa mér.

hildigunnur

jahá, créme brulée uppskriftin beint frá Nönnu: 250 ml rjómi 250 ml mjólk 1 vanilllustöng 100 g sykur 4 eggjarauður Ofninn hitaður í 150° og vatn sett í ofnskúffuna. Vanillustöngin er soðin í mjólkinni og rjómanum ásamt helmingnum af sykrinum og blandan síðan kæld nokkuð. Rauðurnar þeyttar ljósar og léttar með afganginum af sykrinum. Vanillustöngin tekin upp úr og rjómablöndunni þeytt smám saman út í eggin. Hellt í lítil eldföst form sem bökuð eru í vatnsbaði þar til búðingurinn er stífur. Þá er hann kældur vel í formunum, hrásykri stráð yfir og hann bræddur með til þess gerðum græjum. Okkur hefur líkað best að nota eldvörpu en það má nota grillið í ofninum ef það er megaöflugt. Búðingurinn má nefnilega helst ekki hitna um of, bara brenna toppinn. Svo eru til endalaus bragðafbrigði en þetta er grunnurinn.

Hugi

Hildigunnur, ég var að kyssa tölvuskjáinn minn blautum kossi, ég vona að hann hafi skilað sér til þín. Takk!

hildigunnur

:-D

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin