Þjófur

9. júní 2006

Þar sem mér hefur ekki gengið vel að lesa blöðin mín undanfarið tók ég mér frí í vinnunni í morgun til að lesa nýjasta tölublaðið af Nýju Lífi. Á forsíðunni var vitnað í "opinskátt og athyglisvert viðtal við Guðlaugu Hermannsdóttur og Kolbrúnu Nadiru Árnadóttur um ást og tvíkynhneigð". Þessu blaði ætlaði ég sko ekki að tapa svo ég tróð því undir peysuna mína áður en ég keyrði inn á bílastæði þegar ég kom heim úr bakaríinu.

Ég lagði bílnum, engin slys. Gekk inn, datt ekki. Fór upp í íbúð, ekkert gerðist. Ég lokaði og læsti hurðinni á eftir mér, varpaði öndinni léttar, og tók blaðið undan peysunni. Eitt andartak var ég hamingjusamur.

Skyndilega var bankað á dyrnar hjá mér. Mér brá svolítið og ég opnaði dyrnar mjög varlega. Frú Vigdís stóð brosandi fyrir utan. "Sæll Hugi minn, áttu nokkuð syku...". Hann leit á blaðið sem ég hélt á. "...Nei - er þetta nýjasta Nýtt Líf? Má ég fá það lánað?". Eitthvað brast í hausnum á mér. Ég roðnaði í framan á sekúndubroti, svo reif ég blaðið í tætlur og henti því í hann. "GJÖRÐU SVO VEL, TAKTU ÞAÐ, TAKTU ÞAÐ ALLT. OG HÉRNA, HÉRNA ER SKYRTAN MÍN, OG BUXURNAR MÍNAR, OG HÉRNA, Á ÉG AÐ SKERA AF MÉR EINN ÚTLIM LÍKA?!?".

Frú Vigdís klappaði glaðlega saman lófunum og sagði kátur "Meira, meira, bravó". Ég skellti hurðinni á nefið á honum og lagðist grátandi á hnén. Ég sver það, ég fer að fara á kaffihús til að lesa blöðin mín.

Eftir smá tíma snýtti ég mér, klæddi mig, og ákvað að rölta upp til Önnu í leit að huggun. Á leiðinni út greip ég með mér pútterinn sem ég ætlaði að lána henni.

En þegar ég kom upp á þriðju hæðina, þá sá ég hvar rækjusalinn sem leit út alveg eins og Jude Law var að laumast út úr íbúðinni hjá Önnu með stóra tösku á bakinu, líklega fulla af þýfi. Ég er mannþekkjari og vissi alltaf að þetta hefði verið vafasamur náungi, augljóslega atvinnumaður sem þóttist vera rækjusali til að geta skoðað hvaða íbúðir væru þess virði að ræna.

Ég rak upp stríðsöskur, reiddi golfkylfuna yfir höfuðið og hljóp að manninum. Það eina sem hann náði að gera áður en ég var kominn að honum var að setja upp skelfingarsvip og segja lágvært "Good god, it's a madman". Ég átti ekkert gott comeback, svo ég sagði bara hávært "Yes!" í því sem kylfan lenti á höfðinu á honum með teiknimyndalegu "Boink"-hljóði. Næstu mínútur voru ekki fallegar og ég ætla ekki að lýsa þeim nákvæmlega, barnanna vegna, en setningar eins og "TAKE THAT, YOU YOGURT EATING, SHRIMP SELLING THIEF!" og "OH MY GOD, NOT THE FACE!" voru mikið notaðar.

Þegar ég var búinn að fullvissa mig um að líkið - eh - ég meina rækjusalinn, væri meðvitundarlaus, hljóp ég niður í íbúðina mína, hringdi á lögregluna og hljóp svo aftur upp. En þegar ég kom upp á þriðju, þá var mannfjandinn horfinn. Hreinlega gufaður upp, á innan við fimm mínútum. Það hlýtur að vera eitthvað ótrúlegt undrafjörefni í þessum rækjum hans. En það er nokkuð víst að hann mun aldrei aftur þora að ræna hana Önnu mína, ónei, hún á nágranna sem sér um sína.

Ég bankaði hjá Önnu en fékk ekkert svar. Ég andvarpaði, þurrkaði blóð- og hárklessurnar af pútternum, lagði hann upp við dyrnar hjá henni og festi á hann lítinn miða með vingjarnlegu skilaboðunum "þetta færðu fyrir að vera nágranni minn - Hugi".


Tjáskipti

Daníel

Nei hættu nú alveg. Mér hefur fundist vera einhver undarleg lykt af þessum bloggfærslum upp á síðkastið, og jafnvel fundist að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vera. En nú er ég búinn að fatta það. Hugi spilar ekki golf.

Hugi

Bölvuð vitleysa. Hér er mynd af mér í miðri sveiflu: <img src="http://hugi.karlmenn.is/sw_pictures/1001062"> Og hér er ég nýbúinn að setja bolta í hausinn á Finni Ingólfssyni: <img src="http://hugi.karlmenn.is/sw_pictures/1001063">

Daníel

Hei þetta eru nú greinilega falsaðar myndir. Ég veit fyrir víst að þú átt ekki svona derhúfur.

Harpa

Rétt hjá Daníel. Euk þess sem þú er lágvaxin dvergkona (svört að vísu). Hún Baun sagð'okkur´ða! Ekki reyna að plata.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin