Hugi Þórðarson

Upphafið 2

Hvernig stendur á því að sumir eru fullir sjálfsöryggis án þess að veruleg innistæða sé fyrir því meðan aðrir þjást af minnimáttarkennd þrátt fyrir að vera einstaklega vandaðir einstaklingar?  Ef við rekjum okkur aftur lendum við líklega á því sem svokallaðir "vísindamenn" (trúleysingjar) kalla "erfðir" (sköpunareindir).  Ef við leitum hins vegar af skýringum aðeins eitt þrep aftur á bak, þá skiptir líklega mestu hvernig við túlkum það sem við lendum í, það sem við gerum og það sem við segjum. 

Ég hef tamið mér að túlka allt alveg ótrúlega mér í hag.  Segi einhver að ég sé vitlaus, þá er viðkomandi umsvifalaust í mínum huga afskrifaður sem hálfviti (á meðan aðrir myndu e.t.v. hugsa "hmm... hann myndi ekki segja þetta nema það væri satt").  Þegar sagt er við mig að ég sé feitur þá hugsa ég: "Maður getur nú ekki verið alveg fullkominn.  Svo eru líka til svo margir sem eru jafnvel feitari". 

Ein af vinsælli túlkunum hjá mér er "að ég er bara svona á undan minni samtíð".  Vefsýn var á undan sinni samtíð (að reyna að selja auglýsingar á vefinn þegar enginn vildi kaupa), þegar ég starfaði hjá Eimskip spurði Jói yfirmaður minn mig nokkrum sinnum af hverju ég væri að mæta á náttfötunum - en það var löngu áður en "casual friday" varð rosa flott og ég held með Leeds. 

Nú þarf ég væntanlega að snúast til varnar hvernig standi á því að ég sé svo hallærislegur að vera að byrja að blogga þegar stutt er í árið 2006.  Sjáið nú til.  "Ég er svo mikið á undan minni samtíð" að ég byrjaði að blogga um mitt árið 2000!  Ég var sem sagt líklega langt á undan ykkur öllum kæru lesendur.  Þá var um að ræða mjög svo heimspekilegt blogg á ensku - áætluðum erlendum markaði (var sem sagt líka "á undan minni samtíð" hvað varðar útrás íslendinga).  Reyndar var bara um 1 færslu að ræða, en hér er sem sagt bloggfærsla mín númer 2.  Nú geta kannski einhverjir ásakað mig um leti.  2 bloggfærslur á 5,5 árum er ekki mikið.   Málið er að ég hef einfaldlega haft svo rosalega margt mikilvægt að gera.  Líklega er ég þar einnig "á undan minni samtíð" þar sem aldrei er að vita nema þið, lesendur góðir, eigið einhvern tíman eftir að gera eitthvað að viti.

Svo við botnum þetta í upphaf bloggsins.  Ég er stútfullur af sjálfsöryggi.  Ég er meiraðsegja svo gáfaður að ég veit að mögulega er innistæðan fyrir því óveruleg.

|