Hugi Þórðarson

Þetta er ný bloggfærsla

Mynd: Dæmigerður bloggari 
Ef það er eitthvað sem pirrar mig, þá er það hvað félagar mínir eru latir að uppfæra bloggið sitt.  
 
 
Hugi er líklega verstur.  Þessi yndislega mannvera hefur svo margt fram að færa - frábær penni, fróður og gáfaður og nálgast viðfangsefni sín frá skemmtilegum vinklum.  Er með faglega fullkomnunaráráttu og býst ég við að það sé helsta ástæða þess að hann bloggar allt of lítið.  Honum finnst væntanlega ekki þess virði að skrifa inn færslu ef hún mun ekki brjóta blað í mannkynssögunni.
 
 
 
 
Siggi Óla er mikill spekingur.  Hann er gífurlega metnaðarfullur bloggari og sá eini sem ég þekki sem hefur gefið út frumraun sína í smásagnalist á bloggformi.  Siggi er gjarnan persónulegur í bloggi sínu.  Reynslusögur og prívat pælingar eru áberandi.  Ég býst við að hann afsaki sig með tímaskorti væri hann spurður hví hann bloggi ekki oftar, en maður tekur því nú með fyrirvara.  Maðurinn býr úti á landi þannig að hann ætti nú að hafa allan heimsins tíma.  Það er ekki eins og það sé eitthvað annað að gera!  Líklegra finnst mér að símasamband hjá honum í sveitinni sé gloppótt og að gagnaflutningshraði innhringimódemsins býður ekki upp á nema 1000 stafa sendingarhraða yfir mánaðar tímabil (0,00043 bytes/sek).
 
Jón Knútur er uppáhalds bloggari minn.  Líklega er ósanngjarnt að telja hann hér upp meðal bloggara sem eru latir við að uppfæra bloggin sín, en Jón Knútur er reyndar mjög öflugur í blogginu.  Málið er bara að maður býst við nýrri færslu í hvert sinn sem maður læðist inn til hans þannig að hann líður fyrir sinn háa standard.  Jón er mikill fræðimaður og tónlistarunnandi.  Hann skrifar með ákveðnum hroka.  Ekki nægum hroka til að vera talinn hrokafullur, en þó nægilega miklum til að maður efast ekki um að þarna sé maður sem veit allt og hefur rétt fyrir sér.  Þegar ég les umfjöllun Jóns um tónlist þá er ég ekki alltaf sammála.  Ég efast þó ekki um að hann hafi rétt fyrir sér og að smekkur hans sé æðri mínum.  Jón verður Doktor innan skamms, og eru það örlög sem ég tel að hann hefði aldrei getað flúið. 
 
Sævar bróðir er líklega skemmtilegasti bloggarinn.  Hjá honum er stanslaust fjör, djamm og læti.  Bloggið hanns er líka fínt :)  Sævar virðist fyrst og fremst líta á tilgang sinn sem bloggara að skemmta öðrum.  Og honum tekst það.  Hann er fyndinn og hefur greinilega fengið stærri hluta af penna-geninu en ég.  Hann bloggar í rykkjum.  Stundum dynur bloggið á netinu, en svo koma þurkarnir... 
 
Þessir menn eiga það þó sameiginlegt, eins og fram hefur komið, að vera allt of latir að blogga.
 
Þessi bloggfærsla hefur aðeins einn tilgang:  Að sýna fram á að ég er ekki aumingi.  Finnist þér ég blogga of sjaldan, þá ætti þessi færsla að kenna þér eftirfarandi:
1)  Ég verð að forðast að falla í Jón Knútar-gryfjuna.  Með auknu bloggi koma auknar kröfur (fræðiheitið á þessu er "stjórnun væntinga" (e. "managing expectations")).
2)  Það skiptir engu máli hversu oft og hversu vel menn blogga.  Þegar menn sem eru fyndnari, vitrari og betri pennar blogga of sjaldan, þá er ósanngjarnt að ætlast vil meiru af mér.  Enginn bloggar einfaldlega "nógu oft".
 
...watch this space!!!