Hugi Þórðarson

Miami - eða ætti maður kannski að segja Si Miamios.

Var að koma úr tæplega vikuferð til Miami.  Ég var þar staddur til að fræðast um hinn undurfagra heim Stefnumiðaðs árangursmats - nánar tiltekið hvernig áætlanagerð og hið stefnumiðaða mat fer saman.  Eftir að Don Johnson spríklaði um borgina í hvítum jakkafötum og með dökk sólgleraugun þá hefur Miami í mínum huga haft yfir sér ákveðinn glamúr-stimpil.  Ég komst hins vegar að því að líklega er ekki allt satt og rétt sem við sjáum í sjónvarpinu. 
 
Í Florida búa um 2 milljónir kúbverja.  Flestir þeirra í Miami.  Einnig er Miami einn helsta innflutningsborg ólöglegra innflytjenda frá Suður Ameríku.  Þetta gerir það að verkum að Miami er varla  lengur bandarísk borg.  Hvort sem um var að ræða hótel, veitingarstaði, taxa eða aðra þjónustu, þá var ekki EINN aðili sem við þurftum að eiga samskipti við með ensku sem móðurmál.  Upplýsingar í verslunum voru jafnvel frekar á spænsku en ensku og ótrúlegt en satt þá var mjög lítið af feitu fólki þarna.  Sem sagt mjög ó-bandarískt.  Umferðarmenning var ömurleg (öfugt við frábæra reynslu mína af umferð í Californiu) - vegakerfið algjörlega sprungið.  Byggingar voru hrörlegar.  Fátækt virtist talsverð.  Meira að segja South Beach var lítið spennandi fyrir augað þrátt fyrir óendanlegan fjölda hótela.  Eigandi bílaleigunnar (þar sem við leigðum bíl) varaði okkur við því að lenda í slagsmálum, því nýjasta tíska í Miami var "Martial Arts"...  Allir voru á kafi í "Martial Arts" - klíkur, læknar og lögfræðingar.  Flestir þeirra vildu einnig láta reyna á hæfni sína í þessum fræðum.  Don Johson mætti nú alveg skella sér aftur til Miami og taka aðeins til :)
 
Það sem þó stóðst væntingar var veðrið, verðlag, ráðstefnan og nautakjötið!  Einnig þætti mér vænt um að einhver af þeim fjölmörgu líffræðingum sem lesa þennan vef gætu frætt mig um hvers vegna maður verður svo til ekkert var við skordýr og flugur í Californi og Florida.