Hugi Þórðarson

Takmörkuð heilavirkni

Þetta blogg er tileinkað takmarkaðri heilavirkni.  Bæði minni og annara.
 
Heili mannsins - eða a.m.k. hæfileikinn til að nýta heilann - er væntanlega fyrst og fremst það sem veldur því að það er maðurinn sem er að rústa þessari plánetu en ekki einhverjar fallegri skepnur.  Það að við getum  rökrætt, dregið ályktanir, greint skynsamlega hegðun frá óskynsamlegri (án þess að þurfa að fara í gegnum trial/error) og getum skipulagt athafnir og umhverfi er eitthvað sem við lítum á sem sjálfsagðar afleiðingar af því að hafa svona frábæran heila.  Þrátt fyrir það er talið að við notum aðeins takmarkaðan hluta heilans.  Það fær mann til að spyrja sig - hvað felst í þeim hluta sem við af einhverri ástæðu notum ekki?  Ef við myndum ná að virkja óvirka hlutann, hvað myndi þá gerast?  Yrðum við ennþá skynsamari?  Myndum við ná að skipuleggja líf okkar og athafnir enþá betur?  Eða er kannski eitthvað til í þeirri fantasíu að í óvirka hluta heilans felist einhverjir dulrænir hæfileikar?
 
Ég vona að fantasían um dulræna hæfileika sé rétt.  Ég held nefnilega að þegar litið er á heildina, þá séum við komin að ákveðnum mörkum þar sem aukin rökræn hugsun og skynsemi færir okkur ekki lengur framfarir.  Það er einhver annar þáttur í okkur mannskepnum sem virðist afneita rökhyggju og skynsemi.  Við vitum að sígarettur drepa - samt reykjum við.  Við vitum að franskar kartöflur drepa - samt hökkum við okkur þær í okkur (gjarnan djúpsteiktar með coctailsósu).  Við vitum að 10.000 kr. eru íbúum Afríkuríkja miklu verðmætari en okkur, samt látum við lítið af höndum rakna til góðgerðarmála.  Við vitum að stríð hafa sjaldnast skilað tilætluðum árangri - samt berjumst við sem aldrei fyrr.  Við vitum um global-warming, við vitum um gagnsemi þess að rækta líkama og sál, við vitum að of mikið sjónvarpsgláp er óholt og við vitum að lýsi er hollt og að áfengi er eitur.  Það að vita þetta virðist ekki duga til.  Sem betur fer er heilavirknin okkar takmörkuð og verður það til þess að við gerum alls konar vitleysu.  Viðurkenni reyndar að heilavirkni sumra er kannski "aðeins" of takmörkuð þannig að vitleysan verður of ráðandi, en flest okkar gera bara svona rétt rúmlega hæfilega mikla vitleysu.  Og erum við þá e.t.v. kominn að því sem var upphaflega ástæðan fyrir því að ég byrjaði á þessu bloggi um takmarkaða heilavirkni:
 
Ég held nefnilega að hæfileiki okkar til að hegða okkur með órökréttum hætti sé okkur ekki síður mikilvægur en að geta beitt rökhyggju og skynsemi.  Ef lífið okkar á einfaldleg að vera röð rökréttra þátta, þá verður það mjög fyrirsjáanlegt væntanlega einsleitt.  Um leið og við bregðum okkur út af beinu brautinni, þá fyrst fer hið óvænta að gerast.  Þá fyrst gerast hlutir sem fá okkur til að spyrja nýrra spurninga og leita svara.  Til þess að við þróumst (hvort sem það er við sem samfélag eða við sem einstaklingar) þá held ég einmitt að þetta samspil hins órökrétta og svo að geta greint og lært af óvæntri atburðarrás sé algjörlega nauðsynlegt.  Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að sjálfur hef ég lítið gert til að þroska mig með órökréttri hegðun  Ég hef þó alltaf kunnað vel að meta hana og er það líklega ástæðan fyrir því að mínir bestu vinir eru gjarnan þeir sem kunna þá list að gera einhverja algjöra vitleysu :)   Ég held samt að ég sé á þessari stundu að átta mig á því að ég hef mist af miklu undanfarin 10-15 ár og lýsi ég því hér með yfir að ég ætla markvist að reyna að takmarka frekar heilavirkni mína og þannig að rífa mig af því "mono-rail" spori sem maður er á inni í gífurlega fyrirsjáanlega framtíð - og ég skora á ykkur lesendur góðir að gera hið sama !!!  :)