Hugi Þórðarson

Rannsóknarrétturinn, Faxafeni 14

Ég var að hamast á einhverskonar líkamsmeiðingatóli í ræktinni í kvöld þegar mér varð litið upp í teygjusalinn sem er í glerbúri fyrir ofan tækjasalinn. Og þá missti ég mig af hlátri.

Í salnum voru fjórar manneskjur. Tveir karlmenn héngu í klifurgrindunum og hengdu haus, ein kona lá á bakinu í teygjubekk af einhverju tagi, sveigð í næstum 180 gráða vinkil og önnur hékk á hvolfi í einhverskonar satanísku víravirki. Óhamingju- og sársaukasvipurinn á sveittum og rauðum andlitum þessa fólks var gríðarlegur. Það eina sem vantaði inn í myndina var reiður spænskur dóminikanamunkur, öskrandi "Afneitar þú Satan og öllum hans verkum!!!!!?!? Tekurðu Jesú Krist sem frelsara þinn!!!!?!?".

Ég þurfti að stöðva líkamsmeiðingatólið mitt og setjast niður til að hlæja sem vakti talsverða athygli, þótt nærstaddir forðuðust augnsamband og tækju stóran sveig framhjá mér. Ég vona að mér verði hleypt inn þegar ég fer næst í ræktina.