Hugi Þórðarson

Ilmurinn

Ég er með kenningu: Á meðan ég er í vinnunni á daginn safnast nágrannar mínir saman í íbúðinni minni og fremja óguðlegar athafnir með eigin saur á baðherberginu. Það er engin hemja hvað þetta herbergi lyktar illa, sama hvað ég skrúbba og skola og spúla og bursta og sleiki. Ég fæ heilablóðfall í hvert skipti sem ég opna dyrnar þarna inn.

Aðrar kenningar um hvað gæti orsakað lyktina:

  • Einhversstaðar í baðherberginu eru pínulítil ormagöng sem enda í handarkrikunum á Megasi.
  • Líkið af Geirfinni er falið undir baðkarinu.
  • Græni liturinn á baðinnréttingunni er svo ljótur að þegar maður sér hann verður skammhlaup í heilanum á manni sem leiðir út í lyktarstöðvarnar.
  • Fyrri íbúar íbúðarinnar voru með kúabúskap á svölunum og notuðu baðherbergið sem haughús.
  • Piero Manzoni bjó í íbúðinni og notaði baðherbergið sem vinnustofu.

Ég ætla að panta prest í næstu viku til að særa lyktina aftur niður til Vítis. Virki það ekki er ljóst að ég verð að láta rífa allt draslið út úr herberginu og skipta um innréttingu, það á eftir að spara mér peninga til lengri tíma því ég eyði nú þegar tugum þúsunda í ilmkerti og Harpic-kubba í hverjum mánuði. Og það er hvort sem er kominn tími á skipti, ég held að núverandi innrétting hafi verið valin af einhverjum sem er bæði litblindur og blindur. Og ósmekkvís.