Hugi Þórðarson

Fundarstjórinn

Ég þreytti í dag frumraun mína í fundarstjórnun á hádegisverðarfundi um Vef 2.0 hjá Skýrslutæknifélaginu. Þar sem ég á það til að vera stundum oggulítið seinheppinn beið ég spenntur eftir að vita hvað færi úrskeiðis á þessum fundi og var strax í gærkvöldi farinn að sjá fyrir mér blaðafyrirsagnirnar; "Fundarstjóri kveikir í ráðstefnusal með ljóspenna, 11 slasaðir, 2 látnir"; "Fundarstjóri mismælir sig gróflega, móðgar alla viðstadda, brenndur á báli af reiðum múg" o.s.frv.

Nú, það var fullbókað á fundinn og það mættu um 140 manns. Allt gekk vel framan af, þar til fyrsti fyrirlesarinn yfirgaf staðinn eftir fyrirlesturinn sinn og tók í misgripum með sér öll mín fundargögn og minnispunkta, u.þ.b. fjóra metra af atriðum sem ég hafði ætlað mér að nefna, fólk sem ég átti að þakka o.s.frv. Þegar ég uppgötvaði þetta, þá tók ég smá stöðuúttekt í huganum og sá að það var aðeins um þrennt að ræða:

  1. Að missa vitið, fara úr fötunum, öskra "dvergar stjórna heiminum" og stökkva út um gluggann.
  2. Að þykjast missa málið skyndilega og tjá mig með dansi það sem eftir var fundar.
  3. Bulla mig út úr vandanum.

Eftir mikla ígrundun varð þriðji kosturinn fyrir valinu. Ég er sem betur fer gríðarfær bullari og slapp því lifandi frá þessari mannraun en er staðráðinn í að tattóvera öll fundargögn á magann á mér næst.