Hugi Þórðarson

Masókismi er vanmetinn

Við Knúturinn drýgðum mikla hetjudáð í dag, fórum í Fossvoginn og syntum afar kalt, blautt og karlmannlegt sjósund. Sjórinn er hlýrri hér en þar sem ég synti í Danmörku, rétt um 3,5 gráður vs. 2 gráður úti, en samt nægilega kaldur til þess að gjöreyða öllum líkamlegum ummerkjum um karlmennsku. Ég er ekki frá því að þegar ég kom uppúr sjónum eftir fyrstu dýfuna hafi ég verið með álitlega kameltá og stinnari geirvörtur en æst steintröll.

Af áhorfendahópnum (sem hélt sig í öruggri fjarlægð) að dæma voru aðfarirnar áhugaverðar. Við þurftum að vaða talsvert frá landi til að ná sunddýpi, en þegar það tókst lagðist ég í 100 metra ólympískt skriðsund spastískra og tókst að komast svo langt út á Fossvoginn að ég var nokkuð viss um að ég mundi drukkna á leiðinni til baka. Jæja, líklega var leiðin fremur stutt, en það er merkilegt hvernig vegalengdir virðast meiri þegar rasskinnarnar á manni eru frosnar fastar saman.

Eftir sundið fórum við í sánu til að njóta endorfínvímunnar. Ég var svo afslappaður að þótt ég hefði óvænt fætt barn í sánunni hefði það ekki komið mér úr jafnvægi.

Við Knútur ætlum að gera þetta að reglulegum viðburði og það eru auðvitað allir velkomnir. Ég mæli með þessu.