Hugi Þórðarson

Þjónn, það er vírus í súpunni minni

Það er ekki gott að fá flensu. Ég er búinn að liggja og sofa og snýta mér til skiptis í þrjá daga og svefnherbergið mitt lítur núna út eins og leikmynd úr Aliens. Minnsti andardráttur veldur öldu gin- hala- og klaufaverkja og hvert skipti sem ég kyngi oggulitlu munnvatni er eins og að kyngja skapvondum, fullvöxnum ketti.

Ég brá mér niður í apótek í náttfötunum í dag til að sækja nauðsynjar. Hausverkurinn var svo öflugur að ég fetaði mig rammskakkur eftir veggjunum þangað inn og þegar ég loksins fann afgreiðslukonu hvíslaði ég hásri röddu "Hey, þú, hérna, áttu pilllur, ég verð að fá einhverjar pillur". Og ég fékk pillur.

Á heimleiðinni mætti ég Önnu og sagði eitthvað við hana - ég held að ég hafi spurt hana hvaða dagur væri. Svo fór ég inn í íbúð, át allar pillurnar, settist við píanóið og lék jarðarfararmarsinn hans Chopin þar til ég sofnaði. Mér fannst það viðeigandi.

Ég vona að þetta stanslausa bingókvöld vírusanna fari að taka enda.