Hugi Þórðarson

Yfirvofandi

Aðalfundur húsfélagsins nálgast og ég veit að ég er dæmdur maður, því ég mun enda í hússtjórn. Þegar ég sá tilkynninguna um húsfundinn leið mér eins og fanga í Auswitsch að lesa "Félagar, gleðjumst nú saman því stóri baðdagurinn er á morgun."

Heilinn í mér er kominn á fullt við að finna flóttaleiðir. Besta hugmyndin hingað til er að leika mig snargeðveikan, fara t.d. alltaf úr buxunum niðri í anddyri þegar ég kem heim og bjóða öllum íbúum blokkarinnar gleðilegan plómudag eða eitthvað álíka þegar ég hitti þá á ganginum. En ég held að það sé orðið of seint núna.

Annað sem mér datt í hug var að fara niður í bæ á föstudaginn og ná mér í einhvern skelfilegan kynsjúkdóm, helst banvænan eða a.m.k. bráðsmitandi. Eða myrða einhvern nágrannann á mjög grafískan hátt og skilja eftir óræðar vísbendingar um að ég hafi verið að verki. Eða setja upp auglýsingu í anddyrinu um að ég sé að leita eftir sjálfboðaliðum í stormsveitir nýja fasistaflokksins míns. Hver þessara aðferða hefur samt ákveðna vankanta og óska ég því hér með eftir fleiri góðum hugmyndum.

Ef ég flyt aftur í fjölbýlishús ætla ég að skrifa Hûçi T. Ordarßon á dyrabjölluna mína og svara alltaf "Schple? Nô Sprezçki Islanzçki" þegar ég er ávarpaður. Þá hlýt ég að sleppa, því enginn vill sjálfviljugur umgangast útlendinga.