Hugi Þórðarson

Fötin skapa ... hluti

Ég var að ganga í hægðum mínum niður Laugaveginn í dag þegar ég sá svo hræðilega klætt fyrirbrigði að hornhimnurnar í mér móðguðust þegar ég neyddi þær til að horfa á það. Og þegar ég tjái mig um klæðnað þá ber að taka það alvarlega, því ég er ekki beinlínis heitasti boðberi parísartískunnar og "Biblía fallega fólksins" er ekki á leiðinni í körfuna mína á Amazon.

Það sem ég náði að sjá áður en hausinn á mér sprakk og dreifðist yfir 30 metra radíus, var þröngur bleikur bolur sem hélt saman karlmannsbrjóstum eins og á górillu og skoppandi ístru sem náði að gægjast vel yfir beltið á hvítum gallabuxum. Við þetta fóru auðvitað svartir lakkskór. Ég gæti haldið áfram en ég vil ekki særa blygðunarkennd fólks (og útlit mannsins minnti mig líka pínulítið of mikið á sjálfan mig á þvottadegi).

Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér; hversu ósmekklega þyrfti ríkisstarfsmaður eins og ég að klæðast áður en samfélagið fengi iðrakveisu og hreinlega steinsmugaði honum úr kerfinu?

Maður þyrfti náttúrulega að vinna sig mjög hægt niður á við í útliti til að enginn tæki eftir þróuninni, svipað og enginn tók eftir hægfara útlitsþróun Michael Jackson (úr svörtum karlmanni í hvíta konu) fyrr en um seinan. Þetta yrði þriggja til fimm ára verkefni. Ég spái því að ef maður færi nógu hægt í þetta, þá gæti maður endað á því að mæta í vinnuna íklæddur g-streng og rjómaklatta með kirsuberi á sitthvorri geirvörtunni, án þess að nokkur sæi eitthvað athugavert.

En, ég hef enga þolinmæði og mér finnst g-strengs hugmyndin svo góð að það er ekki séns að ég taki þrjú ár í þetta. Ég ætla að kýla á þetta á morgun.