Hugi Þórðarson

Lost

Íbúðin mín er núna ein rjúkandi rúst, hún lítur út eins og ég hafi komið kófdrukkinn heim og reynt að eiga, eh, innileg samskipti við innbúið.

Þetta byrjaði allt fyrir hálftíma. Ég kom heim og gekk beint inn í rútínuna mína sem felst í því að fara í fartölvuna og athuga hvort einhver hafi sent mér póst á korterinu frá því ég yfirgaf vinnuna (já, Internetfíkn er aldrei falleg sjón). En - ég fann hvergi tölvuna. Ég hoppaði út um íbúðina eins og móðursjúk hæna og leitaði hennar allsstaðar, undir borðum, ofan í baðkarinu, inni í ísskáp (tölvan væri ekki það furðulegasta sem ég hef sett inn í ísskáp), allsstaðar. Enginn árangur, tölvan var gjörsamlega horfin af yfirborði jarðar líkt og sjálfsvirðing Geirs Ólafssonar.

Ég var eyðilagður maður, ónýtur af sorg, og fór inn í svefnherbergi með sjötíu pakka af parkódín-stílum til að enda kvölina og kveðja þennan heim. Og viti menn, í rúminu, undir sænginni, var tölvan. Ég faðmaði hana.

PS: Takið sérstaklega eftir því hvernig titill þessarar færslu virkar bæði á ensku og íslensku. Ef þetta er ekki framúrskarandi dæmi um ótrúlega ritsnilld, þá veit ég ekki hvað.