Hugi Þórðarson

Að vera veikur

Eins og alþjóð veit þá er ég búinn að hósta "aðeins" undanfarnar 2 vikur.  Ég ætlaði nú að harka þetta af mér, en þegar ég fór að svima og skjálfa í gærkvöldi þá skelti ég mér nú á læknavaktina.  Ég er víst með lungnabólgu, berkjabólgu og bullandi hita.  Það finnst mér ekki gott.  Ég hreyki mér gjarnan að því að vera ótrúlega duglegur að forðast það að verða lasinn og tek því þess vegna sem persónulegum ósigri þegar utanaðkomandi bakteríur og sýklar ná yfirhöndini gagnvart ónæmiskerfi mínu sem ég hef venjulega óbilandi trú á. 
 
Fyrstu viðbrögð mín þegar veikindi steðja að er afneitun.  "Nei - ég er sko ekki veikur.  Ha.... er ég fölur?  Isssss, helv*** sólarleysið hérna á Íslandi maður.  Ha... er ég eitthvað heitur?  Líklega var ég að hugsa um Chilli.  Hóstinn?  Neeehh...  þú veist að svifryk hefur verið yfir hættumörkum undanfarið".  Þegar ég hef sannfært sjálfan mig og aðra um að ég sé sko heldur betur við hestaheilsu, þá sanna ég það með að fara í fótbolta.  Læknirinn vildi nú meina að ég hefði nú ekki gert ónæmiskerfi mínu mikla greiða með því að fara í fótbolta (2 daga í röð) með lungnabólgu, en án þess að hafa tekið það upp við hann - þá er ég honum ekki sammála.  Með því að afneita veikindunum og fara í fótbolta, þá tel ég að maður sé að fara fram með góðu fordæmi.  Maður getur ekki ætlast til þess af ónæmiskerfi sínu að sýna baráttuhug ef maður leggst sjálfur í rúmmið eins og einhver eymingi.  Nósöríbob.
 
Hins vegar er það nú þannig að ef maður asnast til að fara til læknis þá verður maður nú að fara eftir hanns fyrirmælum.  Þessi tiltekni læknir sem ég fór til sagði að ég ætti að taka lífinu mjög rólega næstu 1-2 dagana, einbeita mér að pilluáti og svo bara að sjá til, en þá ætti mér að vera farið að líða mun betur.  Þetta þýðir sem sagt fjarveru frá vinnunni og það finnst mér fúlt.  Þegar ég er fjarverandi úr vinnunni þá vil ég geta nýtt tíman í eitthvað skemmtilegt - ekki bara hanga undir sæng.
 
Eftir þessar ítarlegu vangaveltur og vísandalegu framsetningu hef ég sem sagt komist að niðurstöðu:  Það er ekki gaman að vera veikur.