Hugi Þórðarson

Ósanngirni

Ég keyrði Hildi systur til Selfoss í dag til að aðstoða hana við kaup á nýjum bíl eftir að sá gamli, sem var orðinn eldri en Reykjaneshryggurinn, hér um bil rifnaði í tvennt eftir miðju á akstri.

Til að gera langa sögu stutta, þá er systir mín, tónlistarmaðurinn, orðin jeppaeigandi. Ósanngirni heimsins er botnlaus. Á meðan ég hossast um á Golfinum eins og illa lyktandi unglingsstelpa, þá ríkir hún yfir götum Reykjavíkur úr krómhöllinni sinni. Það er ég sem ætti að vera á jeppa, ég sem ætti að geta keyrt samviskulaust yfir gamlar konur og ég sem ætti að geta lagt hálfur upp á gangstétt, bara vegna þess að ég get það. Ég, ég ég.

Strax og systa var búin að skrifa undir kaupsamninginn sá ég breytingu á henni. Það kom svona "úúúh, sjáið mig, ég á jeppa"-svipur á hana. Og gott ef hún varð ekki talsvert kýldari að neðan líka.

Nú fer ég og kaupi Landroverinn.