Hugi Þórðarson

Skemmdur

Ég er hreyfingarfíkill og blómstra yfirleitt ekki eins og það litla saklausa blóm sem ég er nema ég fái daglega einhverja hreyfingu. Ég er eins og íslenskur fjárhundur, ef ég er ekki hreyfður verð ég alveg hýper og hleyp geltandi fram og til baka, rispandi parketið og mígandi í öll horn. En. Ég hef aldrei séð tilganginn í þeirri iðju að sitja í sal og lyfta hlutum – og borga fyrir það í þokkabót. Í síðustu viku hlýtur þó að hafa sprungið æð í heilanum á mér og valdið stórskaða, því ég lét mig hafa það og byrjaði að stunda lyftingar. Það var líklega fjölmennt á skíðasvæðinu í Vítisfjöllum þann dag.

Ég er ekki vanur að fara rólega í hlutina og lyfti eins og, eh, maður sem lyftir mikið, þar til vöðvarnir öskruðu á mig "hvern fjandann ertu að gera maður, hættu þessu, ertu orðinn geðveikur". Þá ákvað ég að hætta, því raddirnar vita yfirleitt hvað þær syngja.

Handleggirnir á mér voru einskis nýtir eftir tiltækið svo ég þvoði mér með fótunum í sturtunni og fékk stæltan karlmann til að skrúbba á mér bakið. Svo keyrði ég heim, stýrði bílnum með nefinu og skipti um gír með tönnunum, einu hlutum líkamans sem mig verkjaði ekki í. Þegar ég var búinn að feta mig á hnjánum upp stigann heima og inn í íbúð lagðist ég upp í rúm og sofnaði í fósturstellingunni.

Þegar ég vaknaði daginn eftir ætlaði ég að vippa mér fram úr rúminu með hefðbundnu léttu stökki. En við fyrsta átak fann ég fyrir vítiskvölum ekki ósvipuðum því að ég hefði sett Barböru Streisand á fóninn, hellt yfir mig blásýru og hent mér í hrúgu af logandi kaktusum og glerbrotum. Orðið "harðsperrur" nær ekki að lýsa þessari tilfinningu. Ég hrundi aftur í rúmið og bölvaði því að vera ófær um að lyfta símtólinu, annars hefði ég hringt í vinnuna og meldað mig veikan.

Ég rúllaði mér varlega úr rúminu, hrundi á gólfið, tók góðar 20 mínútur í að klæða mig og skreið svo inn á klósett þar sem ég skorðaði tannburstann í vaskinum til að geta burstað tennurnar. Svo flæddi ég í vinnuna með osmósu.

Frábært að "rækta líkamann" svona, þessi dagur var lifandi helvíti. En ég fór samt og refsaði mér meira í gær, enda vondur strákur. "Aldrei læra af reynslunni, það er tóm tjara" sagði amma alltaf.