Hugi Þórðarson

Vond vika fyrir hina íslensku þjóð

Liðin vika hefur ekki verið gæfurík fyrir hina íslensku þjóð.  Krónan í frjálsu falli, hluthafar í íslenskum hlutafélögum fengu að kynnast því að hægt sé að tapa á fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum, neikvæðar fréttir og skýrslur frá samkeppnisaðilum íslensku útrásarfyrirtækjanna hafa streymt út í samstilltri rógsherferð, og svona mætti lengi telja.  Þetta eru nú samt smámunir miðað við það sem gerðist í gærkvöldi.  Þá kvað hin íslenska þjóð upp þann dóm að Bríet, Snorri og Ína væru betri söngvarar en Ragnheiður Sara.  Þessi niðurstaða segir manni að því miður þá er þessi blessaða þjóð okkar gáfnafarslega dæmd til að sætta sig við örlög sín sem iðnaðarþjóð.  Þetta segir manni að meðaltalsgreind sé einfaldlega ekki næg til að þjóðin geti náð og viðhaldið samkeppnisforskoti í greinum tengdum hátækniiðnaði og öðru því sem þykir fínna og göfugra en áliðnaður og fiskvinnsla.
 
Ég set þann fyrirvara ofangreindar ályktanir að áskrifendur stöðvar 2 séu úrtak sem gefi okkur góða mynd af þýðinu (þjóðinni í heild), en auðvitað skulum við ekki útiloka að áskrifendur stöðvar 2 séu einfaldlega verr gefnir en aðrir íslendingar að meðaltali.
 
Það segir sitt um stöðu mála á íslandi þegar maður sem hefur greinlega ekkert vit á tónlist - og þeim mun minna vit á söng - er gerður að formanni dómnefndar í söngvakeppni.  Einar hefur undanfarnar vikur beitt sér með mjög ásanngjörnum hætti gegn Ragnheiði Söru - á sama tíma og hann hefur ítrekað lýst því yfir að Bríet sé frambærilegust af þeim sem keppa til úrslita í þessari blessuðu keppni.  Bríet - sem þrátt fyrir sjarma og fallegt bros - er sæmileg söngkona í mesta lagi, og hiklaust verulega verri en bæði Ragnheiður Sara og Ína (en þær tvær ættu einmitt að keppa til úrslita).  Það hlýtur að vera ömurlegt starf fyrir Bubba (sem er sá sem undanfarin 3 ár hefur nú talað með mestu viti) að sitja í dómnefnd undir formennsku  Einars.  A.m.k. væri ég búinn að segja slíku starfi lausu.
 
Ég hef reyndar fyrirgefið Einari töluverða vitleysu það sem af er þessu Idol tímabili.  Fyrst og fremst að því að hann samdi nú hið eftirminnilega lag "Farinn" sem er rótgróið saman við frábærar minningar um góða sumarhelgi í Þórsmörk.  Einnig hefur hann sannað sig sem frábær umboðsmaður og viðburðahaldari.  Með þetta CV á bakinu er þó jafn asnalegt að gera hann að formanni dómnefndar og að gera starfsman vídeoleigu sem hefur staðið sig vel í að leigja út myndbönd að formanni listanefndar sem á að verðlauna leikrit og framistöðu leikara.
 
Ég hugleiddi að segja upp áskrift minni að stöð 2 í mótmælaskyni, en þar sem ég er einn af ofangreindum greindarskertu íslendingum þá tek ég eftirvæntingu eftir því næsta sem gerist í "Prison break" fram yfir sannfæringar mínar og prinsipp.
 
Svona fyrst maður er búinn að koma þessu frá sér á prenti þá líður mér strax betur.  Er jafnvel orðið meira sama.  Af hverju á ég að vera að pirra mig á því að einhver gaur úti í bæ láti greddu ráða för þar sem faglega hæfni er ekki til staðar???  Það eru margir sem hafa fleira að gráta en ég.  Ég er til dæmis ekki að tapa gengislækkun bankana þar sem ég er brent barn og á væntanlega seint eftir að gambla með peninga.  Líklega er það einmitt vitnisburður um hversu gott maður hefur það að stærsta áfallið sé niðurstaðan í Idol.