Hugi Þórðarson

Death by chivalry

Ég náði næstum því að afreka það að myrða með herramennsku í gær. Ég var að rölta í rólegheitum út úr Eiðistorgs-skipulagsslysinu á Seltjarnarnesi þegar ung kona kom hlaupandi á móti mér. Í andartaks herramennskukasti slengdi ég fram fætinum til að halda hurðinni opinni fyrir hana, en það fór ekki betur en svo að ég var of seinn að fjarlægja fótinn aftur og hún sá hann ekki, hrasaði um hann, sveif tignarlega dágóðan spöl og brotlenti á andlitinu. Ég faldi andlitið í höndum mér, stundi þungan og hjálpaði ringlaðri konunni á fætur.

Hún virtist óslösuð að mestu en horfði orðalaust á mig í nokkrar sekúndur með blöndu af undrunar- og reiðisvip á meðan ég opnaði og lokaði munninum eins og þorskur. Ég náði ekki að skýra málið áður en hún hljóp í burtu aftur.

Eldri hjón sem sáu atburðarásina úr fjarlægð horfðu stíft á mig og maðurinn hristi höfuðið með vanþóknunarsvip. Líklega hef ég endanlega útrýmt trú þeirra á ungdóminn í dag, hlaupandi um og bregðandi fæti fyrir kvenfólk upp úr þurru.

Herramennska hætti líklega að borga sig í lok 19. aldar.