Hugi Þórðarson

Í leit

Það er leiðinlega auðvelt að staðna algjörlega þegar kemur að tónlistarsmekk og það hefur verið að henda mig í auknum mæli undanfarin ár. Þegar ég var strákskratti á landsbyggðinni heyrði ég aðeins djass og klassík og hugsaði þá "heyrðu, þetta er fínt" og svo hlustaði ég bara á djass og klassík næstu tuttugu árin. Allt þar til nú. Þessi helgi fór í að víkka tónlistarlegan sjóndeildarhring undirritaðs.

Ég fékk Knútinn, þekktan smekkmann, til að velja ofan í mig nýja tónlist og hann brást ekki vini í neyð frekar en fyrri daginn. Nú er ég búinn að sitja límdur við letistólinn og leita að einhverju sem mér líkar, hef hlustað af áfergju á Steely Dan, Gentle Giant, Phish, Maharavishnu Orchestra og margt fleira sem hefur ekki átt greiða leið að hlustunum á mér hingað til. Ég geri ráð fyrir að standa tónlistarlega endurfæddur upp úr stólnum eftir nokkra daga, með smekkvopnabúr sem ætti að duga mér í a.m.k. nokkrar Amazon-körfur.

Það er þegar komin ein viðbót við uppáhaldslistann, Donald nokkur Fagen og þá sérstaklega diskur með honum sem heitir "Morph the Cat" og er æpandi snilld. Hugi-recommended™.

Nú vantar mig fleiri ábendingar á góða tónlist og ef einhver nennir að sá nokkrum tónlistarfræjum í tjáskiptin þá eru þau vel þegin.