Hugi Þórðarson

Feminismi

Umræður í tjáskiptunum um daginn urðu til þess að ég fór að rifja upp skoðanir mínar á feminisma, sem ég var annars búinn að bæla niður og setja í langtímageymslu einhversstaðar aftarlega í hnakkadeild heilabúsins.

Ég var nefnilega á akstri eftir Sæbrautinni fyrir skemmstu þegar ég varð fyrir því óhappi að kveikja á útvarpinu og lenda á Hrafnaþingi hjá Ingva Hrafni. Hann var að venju með feminista í viðtali. Þessi tiltekni feministi var að tala um hvað það væri dæmigert fyrir karllægni samfélagsins að tala um að sáðfruman frjóvgaði eggið við getnað, að það væru ótrúlegir fordómar að tala um framlag karlmannsins sem geranda á meðan konan sæti alltaf aðgerðalaus. Réttara væri að tala um samvinnu eggs og sáðfrumu fremur en frjóvgun.

Þegar feministinn var búin að ropa þessari speki upp úr sér slökkti ég á útvarpinu, keyrði út í kant, stöðvaði bílinn og barði hausnum í stýrið í nokkur skipti. Maður bara spyr sig, hvað er eiginlega að? Er feminisminn virkilega orðinn svo hörð speki að hann vegur þyngra en líffræðilegar staðreyndir? Eða missti ég af líffræðitímanum þar sem var sagt frá því hvernig eggið dansar eggjandi dans (no pun intended) til að lokka til sín réttu sáðfrumuna, eldar fyrir hana kvöldmat og hellir hana fulla, og þröngvar sér svo upp á hana með valdi?

Ég er ótvíræður jafnréttissinni og íhugaði að ganga í karlahóp feministafélagsins á tímabili, en ég held að feministahreyfingin sé aðeins að missa sig. Vegurinn til vítis er varðaður góðum fyrirætlunum.