Hugi Þórðarson

Forboði?

Auk þess að vera draumóramaður er ég mikill draumfaramaður og stend yfirleitt upp eftir nætursvefninn með einhvern nýjan fáránleika í hausnum. Yfirleitt er það eitthvað bráðskemmtilegt, en stundum ekki, og í nótt fékk ég einhverja þá kröftugustu martröð sem ég hef á æfinni fengið. Ég rykktist kófsveittur hálfur upp í rúminu með öskri um hálf-þrjú og leið svo illa að ég gat ekki hugsað mér að sofna svo ég fór fram í eldhús, lagaði mér te og reyndi að lesa til að sefa hugann. Ég hafði engan áhuga á svefni aftur fyrr en í morgunsárið.

Martröðin var löng og fjallaði, þótt merkilegt megi virðast, ekki um olíuborna vaxtarræktarmenn. Ég man bara nokkrar dimmar glefsur, sérstaklega situr ein eftir en það var skelfilega afskræmd hálf kú sem hékk flækt í girðingu, lifandi en skorin í tvennt lóðrétt eftir endilöngum skrokknum, svo ég sá beint inn í hana. Hún horfði á mig þjáðum brostnum augum, froðufelldi og öskraði hræðilegum skerandi mennskum kvenmannsöskrum á meðan ég stóð grátandi og horfði á og gat ekki hjálpað henni þótt mig langaði til þess.

Þetta hljómar kannski spaugilega, en stendur mér ljóslifandi fyrir sjónum og ég fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa um þetta.

Hvað eiga svona draumfarir eiginlega að þýða?