Hugi Þórðarson

Laugardagskvöld í Hagamel

Það er þvottadagur í dag. Það er auðvitað aðeins af illri nauðsyn, ég hef síðustu daga klæðst áhugaverðum fötum úr leyndustu kimum fataskápsins míns og það er núna orðið nokkuð ljóst að þar er ekkert lengur að finna sem ekki er annaðhvort g-strengur, bleikt eða með myndum af brunabílum á.

Þetta verður stórframkvæmd og ég var beðinn af Seðlabankanum að fara ekki í hana núna, þar sem ekki er bætandi á verðbólguna, en ég verð. Það hætti að sjást í þvottakörfuna fyrir þvotti snemma í vor - og ég hefði getað svarið að þegar ég leit síðast á þvottafjallið í lok mars varð ég var við hreyfingu. Líklega þvottabirnir. Ég gleymdi að eitra í haust.

Ég ætlaði að reyna að sleppa við að þvo sjálfur og fór með verkið í útboð en tilboðin sem bárust voru flest langt yfir kostnaðaráætlun, enda verið að bjóða út Héðinsfjarðargöng á svipuðum tíma. Tilboðið frá Íslenskum Aðalverktökum hljómaði reyndar ágætlega, en þeir voru því miður aðeins með erlenda starfsmenn frá starfsmannaleigu og ég fékk ekki leyfi húsfélagsins til að reisa starfsmannaþorp í garðinum. Pempíur sem þessir nágrannar mínur eru.

En ef ég tek þetta skipulega þá ætti ég að ná að klára fyrir sumarið, þ.e. sumarið 2008. Ef ég verð ekki í millitíðinni étinn af kexrugluðum þvottabirni, útúrdópuðum á lyktinni af íþróttafötunum á botni þvottakörfunnar.