Hugi Þórðarson

Kennslustund herramannsins

Píanistasamtökin kynna: Hvernig refsa skal flygli af herramennsku.

Flestir herramenn hafa sinn eigin stíl þegar kemur að því að refsa flygli, en þetta er sú aðferð sem ég beiti, jafnan með góðum árangri.

Það er hægt að refsa flygli við hvaða aðstæður sem er, en sannir herramenn byrja alltaf á að skapa réttu stemninguna. "Rétt stemning" er undir aðstæðum komin, en ef um er að ræða fallegt og rómantískt hljóðfæri, þá opna ég iðulega flösku af góðu rauðvíni sem hæfir því, deyfi ljósin og kveiki á nokkrum kertum. Ef þú átt arin: Notaðu hann.

Byrjaðu á að kynnast hljóðfærinu. Það skiptir öllu að þekkja það vel og vita hvernig þú átt að beita þér þegar þú leikur á það. Það hefur hent bestu herramenn að flytja stórbrotin verk sem þeir þekkja eins og handarbakið á sér, en reynast svo hljóma fölsk og tilbreytingarlaus á rangt hljóðfæri. Ef það gerist er öll stemning ónýt og þú verður að byrja aftur að fikta við blokkflautuna.

Ef ég hef aldrei leikið á hljóðfærið áður, þá strýk ég varlega yfir það og gæti þess að snerta hverja nótu til að fá tilfinningu fyrir því. Þetta er mikilvægt því öll hljóðfæri hafa ólíkan persónuleika og sérstaka eiginleika og engin nóta bregst við áslætti með sama hætti. Sum hljóðfæri þarf að leika á af hörku og ákveðni, önnur krefjast þess að þú haldir aftur af þér og náir þeim til lags við þig með blíðu og natni. Lærðu á tilfinningaskala hljóðfærisins og veldu þér tónverk í samræmi við hann.

Eldri hljóðfæri hafa jafnan meiri sál og dýpri tón sem gefur flestum tónverkum nýja vídd, en þau eru oftast viðkvæmari og krefjast meiri athygli og ástúðar við leikinn til að maður nái að töfra fram fegurstu tónana. Ung hljóðfæri hafa gjarnan ferskan hljóm og stífari strengi og henta betur minna reyndum hljóðfæraleikurum sem leika einföld lög. Meira að segja feilnóturnar skipta minna máli þegar þú leikur á ungt hljóðfæri.

En þótt það skipti miklu að þekkja hljóðfærið verður þú líka að þekkja verkið og vita á hvaða nótur þú átt að þrýsta, því ekkert er verra en að slá ranga nótu í miðju verki. Það hefur jafnvel hent við verstu mistökin að áheyrendur standa upp og ganga út. Athugaðu þó samt að þú mátt aldrei, aldrei nota nótur við leikinn, því nótnalestur eyðileggur alla næmni þína og tilfinningu. Það segir sig sjálft að þú getur aldrei haldið athyglinni við tónlistina ef þú ert að lesa á meðan þú leikur. Þú verður því að gæta þess að þekkja verkið vel og vita hvaða fingrasetningu þú ætlar að beita.

Að lokum, ef þér líkar við hljóðfærið og fyrir liggur að leika mörg verk, ekki leika sama verkið aftur og aftur. Varíeraðu milli hægra, ástúðlegra noktúrna og stormasamra, ástríðufullra etuda, og þú getur verið viss um að halda áhuga áheyrenda. Ef þú setur upp góða dagskrá munu þeir standa upp aftur og aftur og grátbiðja um aukalög.

Góðar stundir.