Hugi Þórðarson

Í form

Ég lenti í því um daginn að grennast. Fólk spyr mig stöðugt hvernig ég fór að því og ég er orðinn dauðþreyttur á því, því eins og allir vita, þá er ekkert leiðinlegra en að hitta gamla vini og það fyrsta sem þeir segja er "vá, ferlega ertu orðinn grannur og stæltur og vel vaxinn og almennt fallegur, you sexy thing". Óþolandi.

Til að stöðva þennan óþverra ætla ég að lýsa því í eitt skipti fyrir öll hvernig ég fór að.

Ég læt klukkuna alltaf vekja mig klukkan 5 á morgnana svo ég geti ælt og grátið smá (tárin losa um salt sem bindur vökva, svo það er betra að vera óhamingjusamur). Svo fer ég aftur að sofa. Klukkan sjö fer ég á fætur og sprauta mig með rafgeymasýru sem veldur brennandi sársauka sem útilokar hugsanir um mat. Sýran veldur líka ógleði, svo ef ég er heppinn næ ég að æla svolítið hressilega. Klukkan átta fer ég í ræktina þar sem ég puða þar til ég svitna seigum, brúnleitum vökva sem getur leyst upp málma. Í hádeginu fer ég á klósettið þar sem ég sniffa amfetamín og æli. Síðan fer ég í mötuneytið og sleiki salatblað. Fæ alltaf pínulítið samviskubit yfir því, en maður verður víst að nærast. Eftir hádegismatinn finnst mér gott að drekka fimmtán bolla af kaffi, sem ég æli auðvitað aftur, enda inniheldur hver bolli talsvert af þúsundum úr hitaeiningu.

Ég elda mér alltaf hamborgara í kvöldmat. Svo horfi ég á hann á meðan ég brenni á mér handlegginn með kveikjara og öskra og græt, en eftir það hendi ég hamborgaranum. Svo sprauta ég mig með heróíni, æli pínulítið, og ef ég er í stuði fæ ég mér meiri rafgeymasýru. Svo tek ég alltaf eina góða stólpípu fyrir svefninn, en það hjálpar mér að melta kolvetnin sem ég sleikti af salatblaðinu í hádeginu. Í rúminu les ég Biblíu fallega fólksins og strýk yfir myndirnar af Gillzenegger með fingurgómunum. Á meðan sýg ég gamlan frottésokk, úr honum fæ ég nauðsynlegan dagsskammt af trefjum.

Ég fann þessa tækni sjálfur upp og kalla hana "Gleðikúrinn®". Bókin kemur út í næsta mánuði. Ég veit að þetta hentar ekki öllum, en búi maður yfir agnarlítilli sjálfsstjórn þá er þetta alveg málið.

Nei, ég er nú að plata pínu. Galdurinn sem ég beitti til að komast aftur í mitt gamla góða form var að borða minna og hreyfa mig meira. En það trúir því nú enginn. Það er nefnilega bannað að komast í form í dag nema maður éti pillur og prótínhristinga og fylgi Atkins-kúrum, kolvetnakúrum, South beach-kúrum, Hollywood-kúrum, dönskum kúrum eða kúr-kúrum og borði ekkert nema bygggraut úr trogi. En það er einhvernveginn ekki minn stíll.