Hugi Þórðarson

Starfsdagar

Ég er undanfarna daga búinn að vera á starfsdögum Umferðarstofu í Borgarfirði. Það var fínt, ég komst m.a. að því að ég hef gaman af að búa til verkferla. Eins og ég hafi nú ekki verið nógu skemmdur fyrir. Merkilegast fannst mér þó að á mánudaginn afrekaði ég það að klifra upp tólf metra háan súrheysturn. Og hafði gaman af.

Þetta væri ekki í frásögur færandi nema hvað að ég er einhver lofthræddasta lífvera sögunnar, ég nota ekki einu sinni efstu hillurnar í eldhússkápunum hjá mér. Ef ég fengi að ráða, þá mundi ég skríða um á fjórum fótum alla daga. Það að ég skuli hér lýsa því yfir að ég hafi gaman af klifri er ekki ólíkt því að Halldór Ásgrímsson héldi fréttamannafund og lýsti því yfir að hann hefði bara ansi hreint gaman af sverðagleypingum og teygjustökki og langaði að verða atvinnutöframaður.

Mér tókst nú samt auðvitað að móðga kvenmann á staðnum, það er nú bara orðin hefð á mínum ferðalögum. Áður en ég klifraði upp turninn í annað sinn gaf sæta stelpan sem festi á mig klifurbeltið mér smá ráð. Það reyndist afar gagnlegt við að koma mér alla leið upp, og þegar ég var kominn niður aftur og stelpan var að losa klifurbeltið úr klofinu á mér, leit ég niður og sagði "Aaah, takk fyrir tippið, þetta hjálpaði mér upp". Stelpan hætti að gramsa á milli fótanna á mér og lyfti höfðinu hægt þar til augu okkar mættust. Tíminn stöðvaðist. Og þá hrópaði ég "TIPSIÐ, TIPSIÐ, ÉG MEINTI TIPSIÐ".

En skaðinn var skeður og nú er ég líka með nálgunarbann á Indriðastöðum í Borgarfirði. Stundum segir munnurinn á mér merkilegustu hluti. Ég kenni Freud um, ef hann hefði aldrei fundið upp þessi "slip" sín, þá væri líf mitt talsvert einfaldara.