Hugi Þórðarson

Gleðilega páska

Ég er ekki mikil sælgætisæta. En skömmu fyrir páska fékk ég gefins frá vinnunni páskaegg númer 6. Fyrir þá sem ekki eru vel versaðir í páskaeggjafræðum, þá er egg númer sex svipað að stærð og meðalkarlmaður og inniheldur næga hreina súkkulaðiorku til að koma sundmanni til Kúbu og til baka aftur.

Ég dröslaði fengnum heim og opnaði pakkann, því ég ætlaði að brjóta eggið niður í skálar til að eiga handa gestum og gangandi. En svo fékk ég mér einn mola, og eftir það man ég ekkert. Súkkulaði-blackout. Ég rankaði aftur við mér nokkru síðar stumrandi yfir tómum umbúðunum af horfnu egginu, og skreið stynjandi inn í rúm þar sem ég lagðist á bakið og talaði tungum í dágóða stund. Áður en ég sofnaði órólegum svefni hóstaði ég upp gulum plastfugli og málshætti.

Þegar ég vaknaði daginn eftir vissi ég nákvæmlega hvernig úlfinum í Rauðhettu leið þegar búið var að koma grjótinu fyrir í maganum á honum og ákvað að forðast ömmur og djúpa brunna það sem eftir var dags. Tilfinningin hvarf þó eftir því sem leið á daginn og um kvöldið taldi ég nokkuð öruggt að brúna hættan væri liðin hjá.

En strax og ég vaknaði á þriðja degi og ætlaði færa hina hefðbundnu morgunfórn til postulínsguðsins (á hóteli í Borgarfirði) fann ég að neyðarástand var í uppsiglingu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og mikinn kinnroða lét fórnin á sér standa. "Nújæja", hugsaði ég, "það bíður þá betri tíma". Þetta endurtók sig nokkrum sinnum yfir daginn og þegar komið var fram á kvöld var ég farinn að upplifa fæðingarhríðir. Og ég vissi að ég yrði að grípa til ráðstafana.

Ég fór inn á klósett með einurð í svip, setti stól undir hurðarhúninn, fann mér hentugt kefli til að bíta í og skorðaði mig kyrfilega af á klósettinu með því að setja fæturna í vegginn á móti mér. Svo opnaði ég allar gáttir. Ég svitnaði og öskraði og bölvaði, ég hló og ég grét, ég gladdist og reiddist og ég krafsaði með nöglunum í veggina þar til ég var kominn í gegnum málninguna. Líf mitt þaut framhjá augum mér, og á tímabili varð allt hvítt og mér fannst ég sjá alla framliðna ættingja mína standa í kringum mig og segja mér að "koma inn í ljósið".

En eftir um tíu mínútur bar erfiðið árangur og ég sver að Óðurinn til gleðinnar hljómaði í eyrum mér eins og sprenging. Skömmu síðar fæddi ég minn fyrsta grágrýtisklump, líklega um fjórtán merkur. Ég skakklappaðist á fætur og hló geðveikislega á meðan ég þvoði mér um hendurnar, hló áfram þar sem ég gekk út af baðherberginu, og þegar ég gekk hlæjandi framhjá afgreiðslustúlkunni í anddyri hótelsins brosti ég óþægilega breitt til hennar og benti með þumlinum á klósetthurðina. Hún brosti vandræðalega. Heyrði eflaust allan hamaganginn.

Nú gætu menn spurt sig, hvers vegna í ósköpunum skrifaði ég um þetta? Það er vegna þess að mér þykir vænt um ristla og gyllinæðarnar heimsins og vil að aðrir læri af mistökum mínum. Borðið Husk. Og farið varlega í páskaeggin.