Hugi Þórðarson

Svalbarði - Dagur 1

Ég lofaði víst að blogga um svalbarðaferðina og ætla mér að standa við það :)
 
Klukkan er núna korter í 3 (local time) og ég var að koma heim úr frábærri snjósleðaferð.  En byrjum á byrjuninni:
 
Hópurinn lenti í dag kl. 14 á flugvellinum við "Longyearbyen".  Longyearbyen er "höfuðborg" Svalbarða og er á eyjunni Spitsbergen.  Flest ykkar halda eflaust að nafn bæjarins þýði að hér sé árið lengra en annarsstaðar... t.d. 368 dagar í stað 365, en það er ekki rétt.  Bærinn er einfaldlega skýrður í höfuðið á Longyear nokkrum sem átti víst leið hérna hjá fyrir nokkru.  Ég er svo mikill sveitarmaður að ég féll strax fyrir Longyearbyen.  Lítið samfélag.  Mikil samheldni.  Hægt að labba allt.  Glæpir varla til.  Fólk skilur lykklana eftir í bílunum (og snjósleðunum).  Þetta væri sem sagt algjör paradís...  eða hvað?  Sumt er nú reyndar umdeilanlegt hvort sé gott eða vont.  Hér er t.d. nánast engin gróður.  Það vex ekki einusinni gras í görðunum hjá fólki.  Túrismi hér er MJÖG mikill.  Öll gisting sem er í boði er almennt troðfull og oft getur verið erfitt að fá flug á þeim tímum sem hentar.  Stóran hluta ársins er bjart allan sólarhringinn.  Skýrir það t.d. að ég er ekki í svefnstuði núna.  Einnig eru um 3 mánuðir á árinu þar sem er stöðugt myrkur!  Það hljómar reyndar illa, en 9 mánuðum eftir það tímabil hrúgast börn út hér á svalbarða þannig að myrkrið virðist líka hafa einhverja kosti.   Að lokum er svo það sem er óumdeilanlega neikvætt við Svalbarða:  Það er almennt kalt hérna og mjög vindasamt.  Þrátt fyrir allt jákvætt þá vegur þetta þyngra þannig að ég mun sem sagt ekki flytja hingað á næstunni ;)
 
Eftir að við lentum þá keyrðum við að hótelinu okkar í gegnum allan bæinn.  Sáum þar háskólann, verslunarmiðstöðina, sjúkrahúsið, íþróttamiðstöðina, o.fl.  Hér er sem sagt allt til alls.  Hótelið er ótrúlega sjarmerandi.  Var víst einhverntímann viðverustaður heldri manna í kolgrafarasamfélaginu hérna.  Hingað máttu verkamenn ekki koma.  Frá 2000 hefur þetta þó verið hótel.  Stíllinn er gamall og norskur.  Mikið timbur.   Lítil tíska.  Byrjuðum á því að borða hádegismat.  Í hádegismat var dýrindis lax með kartöflustöppu.  Rosa gott.  Eplakaka í eftirrétt.  Svo hófust fundarhöld.  Fundað var frá 15-19.  Ég ætla ekki að kvelja ykkur með því að fjalla ítarlega um dagskrá og efni fundarins í ljósi þess að fæstir hafa sérstakan og innilegan áhuga á ökutækjaskráningum. 
 
Kl. 19:30 var svo kvöldmatur.  Hann var sko ekki af verri endanum!  Í forrétt voru risarækjur, í aðalrétt hjartarkjöt (hjartarlundir) og geðveikur vanillubúðingur í eftirrétt.  Þetta var satt best að segja ein besta máltíð sem ég man eftir að hafa átt á hóteli.  Eldhúsið hér er víst rómað fyrir afburða eldamennsku (þó svo að ég muni ekki eftir að hafa heyrt þann orðróm á Íslandi ;) .
 
Eftir kvöldmat var svo brunnað upp á herbergi - drifið sig í ullarnærfötin og var förinni heitið í snjósleðaferð.  Við vorum dressuð upp í fatnað sem líklega hefði haldið manni heitum við alkul og kennt grundvallaratriðin í snjósleða-akstri.  Ferðin sjálf var svo frábær.  Brunuðum bæði eftir harðfeni og púðursnjó.  Stoppuðum nokkrum sinnum og fræddumst um sögu og náttúru, drukkum kakó og borðuðum súkkulaði.  Túrinn tók enda og here I am... uppi í rúmmi að blogga eins og einhver nörd.  (það var búið að loka barnum ;) )
 
Sem sagt - frábær dagur, en einu vonbrigðin að enn hef ég ekki náð að slást við ísbjörn...   Það er víst ekki nema vika síðan einn lagði leið sína til byggða þannig að það er nú aldrei að vita hvað gerist næstu daga!
 
Á morgun heldur ferðasagan áfram og vonandi næ ég þá að henda inn nokkrum myndum.
 
Bæjó!