Hugi Þórðarson

Brúðubíllinn

Ég sat í bílnum mínum í dag, stopp á ljósum á Sæbrautinni. Að venju var eitthvað lítið leikrit í gangi í hausnum á mér og til að stytta mér stundir setti ég upp leikþátt þar sem ég notaði höndina á mér sem sokkabrúðu (í hlutverki Valgerðar Sverrisdóttur). Ég var að lifa mig mikið inn í leikverkið og hló að sjálfum mér milli þess sem höndin á mér flutti ræður um álver, þegar ég mundi allt í einu eftir því að það eru gluggar á bílum. Ég fraus og leit varlega inn í bílana við hliðina á mér. Vinstra megin við mig lágu bílstjóri og farþegar lamaðir úr hlátri, hægra megin við mig sat mest undrandi kona sem ég hef séð, með augu á stærð við undirskálar og neðri kjálkann liggjandi á milli hnjánna.

Ég gaf hressilega í þegar græna ljósið kom. Fyrrnefndi bíllinn var innan skamms kominn upp að hliðinni á mér og þremenningarnir í honum veifuðu til mín, skælbrosandi. Ég gerði mér fram að því enga grein fyrir því hversu mikið er hægt að roðna án þess að deyja.

Ég biðst annars forláts á kjaftstoppi mínu þessa dagana, ég er búinn að vera á hvolfi í vinnunni og undirbúningi fyrir mögnuðustu ráðstefnu alheimsins, IceWeb 2006 (ertu ekki örugglega búin(n) að skrá þig?) Ég sný til baka endurnærður í lok næstu viku.