Hugi Þórðarson

Þreyttur

Ég á ekki snepil af orku til að setja í alvöru færslu, en læt hér með máttarvöldin og aðra vita að með mér er enn lífsmark.

Við Joe Clark, einn fyrirlesaranna á IceWeb, fórum í sjónvarpsviðtal í morgun. Um 30 sekúndum áður en við fórum inn í stúdíóið opnaði ég Fréttablaðið og sá viðtal við mig vegna ráðstefnunnar. Það fyrsta sem ég tók eftir var að þeir höfðu skrifað nafn Joe sem "Joke Clarke". Ég hreinlega rifnaði í tvennt á staðnum úr hlátri og var viss um að ég yrði óviðræðuhæfur í viðtalinu sökum hlátraskalla, en mér tókst með hörku og einurð að hafa stjórn á mér þótt ég væri þvoglumæltur á tímabili. Það besta var að þótt þeim tækist að klúðra stafsetningu á nafninu "Joe", tókst þeim að ná "Holzschlag" rétt.

Ég leigði svo stóran jeppa í dag og keyrði "Gullna hringinn" með fyrirlesarana og Hauk, einn skipuleggjenda. Leslie, kærasta eins fyrirlesarans átti svo yfir kvöldmatnum fallegustu ummæli sem ég hef fengið um aksturslag mitt: "Hugi, you are a really good driver. It was kind of crazy, but I never felt like I was going to die."

Mottó dagsins eru þreyta, mikil ánægja og samhengisleysi í skrifum.