Hugi Þórðarson

Játning einhleypingsins

Sem háaldraður einhleypingur fæ ég mikið af áhugaverðum spurningum sem krefjast óáhugaverðra svara. Þessu ætla ég að bæta úr. Af biturð.

Hugi, ertu hommi?

Konan át í græðgi sinni eplið af skilningstrénu og ber þannig ein alla ábyrgð á erfðasyndinni og allri bölvun mannkyns frá upphafi. Vill einhver sjálfviljugur umgangast svoleiðis fólk?

En svarið við upprunalegu spurningunni er nei, ég er ekki hommi.

Hvernig stendur þá á því að þú ert einhleypur?

Limurinn á mér er lítill og snúinn, blár á litinn, alsettur bólum og kýlum og lyktar eins og skemmd sítróna. Hefur þú áhuga á að búa með slíkum grip?

Hvenær ætlarðu að ná þér í konu?

Hið hefðbundna nörd verður yfirleitt ekki kynþroska fyrr en um tvítugt og fengitíminn er eftir það aðeins einu sinni á sjö ára fresti, burtséð frá því hvort mökun heppnast eða ekki. En næsta tímabil hjá mér er 17. til 19. mars 2007 og ég lofa að það mun ekki fara fram hjá neinum, því mökunardans nördsins er tilkomumikil sjón. Ég er þegar búinn að kaupa latexgallann.

Er ekki frábært að vera einhleypur, laus og liðugur?

Jú. Ég eyði öllum mínum dögum í að hlaupa nakinn um í skóginum og velta mér hlæjandi upp úr dögginni. Jibbí!

En hvað er eiginlega með þig og [kvenmaður x]?

Jæja, ég játa það. Eins og allir vita er vinátta fólks af gagnstæðu kyni ekki möguleg. Við x erum í raun einu félagarnir í hinu íslenska oculolinctus-félagi og sitjum heilu dagana uppi í sófa og sleikjum augun í hvort öðru.

Ég á frábæra vinkonu sem væri fullkomin fyrir þig. Á ég að kynna ykkur?

Ég gekk nýverið í vísindakirkjuna og þurfti þá að gelda mig og éta af mér eistun, svo nema vinkona þín sé að leita að kontratenór eða briddsfélaga, þá held ég að hún hafi ekki áhuga.

Ef þú gætir valið milli konu og frotté-handklæðis, hvort mundir þú velja?

Það veltur að sjálfsögðu á gæði frottésins og mýkingarefninu sem notað var við þvottinn. Þ.e. á handklæðinu. En líklega mundi ég velja handklæðið því þau má einfaldlega setja í suðuþvott þegar sveppagróðurinn fer að grassera í þeim.

Og hananú.