Hugi Þórðarson

Föstudagskvöld

Annað fjör-hlaðið föstudagskvöld á Hagamelnum. Jacques Loussier er að leika sér að Satie á fóninum og ég var að ljúka við að hræra saman í nokkur Crème brûlée fyrir annað kvöld skv. uppskriftinni góðu frá Hildigunni. Þau eru komin inn í ofn og ilmurinn í íbúðinni er himneskur.

Svona ættu allar vikur að enda.

En já, ég fór semsagt í Kokku um daginn og festi kaup á logsuðutæki til Crème brûlée-gerðar (sumir kalla þetta brennara, en mér finnst karlmannlegra að eiga logsuðutæki). Ég er búinn að eiga téð áhald í tvær vikur og hvers vegna ég er ekki þegar búinn að brenna blokkina til grunna er og verður ráðgáta. Á fyrsta degi náði ég að kveikja í eldhúsrúllu og flambera tölvuna mína allhressilega, á öðrum degi brenndi ég hér um bil alla húð af þumalfingri vinstri handar og á þriðja degi var farið að slá út á mér köldum svita bara við að hugsa um áhaldið.

Ef þið heyrið í fréttum á morgun eitthvað í stíl við "Rauðhært gerpi brennir vesturbæinn til grunna við búðingsgerð" þá vitið þið hvað gerðist.