Hugi Þórðarson

Af laukum og flugum

Anna kíkti í mat í gær og hún kom færandi hendi, með laukskera af flottustu gerð! Sem mér fannst alveg magnað, því aðeins fjórum klukkustundum fyrr var ég á þrammi um Kokku í árangurslausri leit að einum slíkum.

Þetta dásamlega áhald á eftir að spara mörg tár á þessu heimili og nú get ég loksins aftur farið að elda gratineruðu lauksúpuna, en hana hef ég ekki gert í tvö ár þar sem grátköstin yfir lauknum ollu krónískri depurð. Og ég var hættur að hafa efni á sálfræðimeðferð í hvert skipti sem ég eldaði súpu.

Spök orð dagsins: Ef þú ert að leita þér að íbúð, ekki horfa á hriplekar pípulagnirnar, ónýt gólfefnin, sprungurnar í veggjunum eða myglaða eldhúsinnréttinguna. Það eina sem þú þarft að vita er hvort góður nágranni fylgir með í kaupunum. Önnur heimsins eru ómetanlegar og skipta svo miklu meira máli en steypan og timbrið sem þú færð í kaupbæti.

Ég vaknaði annars kl. 7 í morgun við háværar drunur. Það fyrsta sem ég hugsaði í draumhvörfunum var "stúkurnar eru komnar!" en þegar ég var búinn að hrista af mér svefninn sá ég að ástandið var mun verra en það. Það reyndist vera komin reiðileg hunangsfluga inn í íbúðina, greinilega ölvuð, og hún var byrjuð að brjóta og bramla innbúið. Af vextinum að dæma held ég að þetta hafi verið ein af þessum vaxtarræktar-hunangsflugum sem bryðja anabólíska stera eins og hunang.

Ég sveif á fætur, vopnaðist vatnsglasi og nýjasta tölublaði Gestgjafans og fór svo á fluguveiðar. Eftir tíu mínútna æstan eltingarleik og stutt slagsmál tókst mér að taka þrjótinn hálstaki og kasta á dyr (ég þarf alltaf að bjarga öllu kviku sem slysast inn til mín, get ekki gert flugu mein).

Ég vona að nágrannarnir í blokkinni á móti hafi sofið frameftir í dag, annars fengu þeir í morgun áhugaverða sýningu á nöktum karlmanni stígandi villtan stríðsdans.