Hugi Þórðarson

Fimleikar

Ég hef aldrei verið þekktur fyrir fimleikahæfileika mína en bætti allglæsilega úr því í gær. Ég brá mér í sund, sem gekk ágætlega framan af, en í sturtunni eftirá afrekaði ég það að stíga í bleytu (merkilegt nokk), renna til og taka svo í framhaldinu þrefalt heljarstökk með heilli skrúfu og fullkominni lendingu. Á bakinu. Þegar ég náði andanum aftur skreið ég á fætur, horfði með öðru auganu á hópinn sem hafði safnast í kringum mig (það er eitthvað ógnvekjandi við að vera í miðjum hring nakinna karlmanna) og hvíslaði hás "takk, takk, ég verð hér alla vikuna". Viðstaddir gláptu á mig og vissu greinilega ekki hvort þeir ættu að klappa eða hringja á sjúkrabíl.

Ég virtist þó nokkuð óskaddaður og komst heim og í rúmið þar sem ég bölvaði mér í svefn. Ég hélt að ég hefði sloppið vel, kannski bara með nokkur brotin bein og varanlegan heilaskaða, en svo vaknaði ég snemma í morgun við dauðateygjurnar í bakinu á mér, blessuð sé minning þess. Ég velti mér á fætur og sá þá að ég er kominn með slíka kryppu að ég fengi ekki einu sinni vinnu sem hringjari. Kannski sem aðstoðarmaður brjálaðs vísindamanns. Kannski.

Nú ligg ég hér í rúminu og get ekki annað. Ég get ekki lesið og það er full erfitt að halda tölvunni í jafnvægi á bringunni á mér og pikka um leið. Þetta þýðir að ég þarf núna að eyða a.m.k. einum degi einn með heilanum á mér. Það getur ekki endað vel.