Hugi Þórðarson

Ekki dauðvona

Eftir fyrrnefnd náin en harkaleg skyndikynni við sturtugólfið í Vesturbæjarlauginni ákvað ég að kíkja til læknis út af bakinu á mér. Ég íhugaði reyndar að fara frekar til sálfræðings þar sem það er ekki gott fyrir andlega líðan að ranka við sér í sturtu með tíu karlmanns... eh, hluti, dinglandi ofan við andlitið, en ég ætla að reyna að harka það af mér og vona að draumarnir hætti þegar frá líður.

Læknirinn fullvissaði mig um að það væri ekkert að mér, bara smá tognun í bakinu, og ég yrði orðinn góður á nokkrum dögum. En úr því ég var kominn á læknastofu ákvað ég að biðja hann að kíkja á furðulegt þykkildi á brjóstkassanum á mér sem hefur farið hratt stækkandi undanfarnar vikur og valdið mér talsverðum áhyggjum.

Ég lýsti áhyggjum mínum fyrir lækninum og hann bað mig að fara úr að ofan (sem gerði ekkert til að hjálpa með minningarnar úr Vesturbæjarlauginni) og þuklaði svo þykkildið hugsi á svip. Ég fann munnvatnið þykkna uppi í mér á meðan, viss um að hann mundi innan skamms segja mér að drífa mig að finna ástina og eignast börn, því þetta væri illkynja æxli og ég ætti í mesta lagi tvær vikur ólifaðar.

Eftir nokkurt þukl (full langt ef þú spyrð mig) leit læknirinn beint í augun á mér og sagði "Hmmmm, já, áhugavert, áhugavert. Þetta er vöðvi." Og svo hló hann.

Ef ég hefði haft skóflu við höndina þá hefði ég grafið mjög djúpa holu og látið mig hverfa.