Hugi Þórðarson

Kvennafar à la Hugi

Um daginn rifjaðist upp fyrir mér atvik frá menntaskólaárunum. Þá var ég á tímabili hrifinn af stelpu sem var með mér í kór MH, eina skiptið sem ég minnist þess að hafa hrifist af einhverju kvenkyns á mínum aldri. A.m.k. af tegundinni Homo Sapiens Sapiens.

Eitthvað kvöldið var ég að skokka í hlíðunum, það var komið myrkur og ljósastaurarnir voru af einhverri ástæðu ekki að þjóna samningsbundnu hlutverki sínu. Þegar ég var kominn í Hamrahlíðina sá ég umrædda stelpu framundan og greip að sjálfsögðu tækifærið, skokkaði upp að hliðinni á henni í myrkrinu, hægði á mér og varpaði mæðinni.

Hugi: "Góða kvöldið".
Stelpa: "Eh, góða kvöldið".
Hugi: "Hvað syngur í þér"?
Stelpa: "Bara... Eh.. Allt ágætt".
Hugi: "Hvaða ferðalag er á þér"?
Stelpa: "Eh... ég er bara á kvöldgöngu".
Hugi: "Er það nú ekki full djarft að vera ein á gangi svona í myrkrinu? Með alla þessa karlmenn á ferli?".
Stelpa: [þögn]

Þessar samræður voru ekki að ganga vel. Ég var bara engan veginn að ná sambandi. Ég skildi hvers vegna þegar bíll keyrði framhjá okkur og ljósi sló á andlitið á stelpunni - og ég áttaði mig á að ég hafði aldrei á ævinni séð hana áður.

Ég þakkaði fyrir spjallið, bauð pent gott kvöld og sprettaði svo í burtu, hraðar en ég hafði á ævinni gert áður.