Hugi Þórðarson

Bless bless kaffi

Nú er yfirvofandi efnahagskreppa í Brasilíu með tilheyrandi hungursneið og borgarastyrjöld. Og allt mér að kenna, því ég hætti samviskulaust að drekka kaffi í gær.

Eða hætti, þá meina ég að ég drakk ekki nema fimm bolla fyrir hádegi í gær og í þrjá í dag, en það eru um 30% af hefðbundnum morgunskammti eða 12% af dagsskammti. En á morgun hætti ég alveg. Tíu fingur upp til guðs.

Ég er búinn að vera óforbetranlegur koffínfíkill í tíu ár og svarta gullið hætti fyrir löngu að hafa þægilega hressandi áhrif á mig. Núna þarf ég 20-30 bolla yfir daginn (2-4 grömm af hreinu koffíni) bara til að komast í gegnum hann án þess að eiga á hættu að sofna í miðjum samræðum. Og þegar maður er búinn að innbyrða slíkt magn koffíns í nokkra mánuði fer að grípa mann sjúkleg löngun til að stökkva á fætur í tíma og ótíma og dansa skrykkdans, taka nærstadda hluti og troða þeim hér og þar á næsta manni eða bara hreinlega að pota nál í hausinn á sér og athuga hvort hann springur.

Árangurinn af koffínskortinum lætur ekki á sér standa. Ég var andleg eyðimörk í dag og gerði lítið annað en að horfa á skrifborðið mitt með sólheimaglott á vörum og þykkan sleftaum lekandi niður hökuna. Í hvert skipti sem ég opnaði munninn streymdu út slembikenndar runur af sérhljóðum eða, á verstu stundunum, umræður um veðrið. Ef það hefði kviknað í mér hefði ég líklega sagt "Neisko, bara kviknað í mér". Og svo hefði ég brunnið þögull til bana, sitjandi brosandi í stólnum.

Ég veit af reynslu að fráhvarfið tekur viku. Í millitíðinni ætla ég að reyna að hlífa öðru fólki við að umgangast mig því ég hef öðlast ofurkrafta til að drepa fólk úr leiðindum með nokkrum orðum.

Áhrif lyfja á spunahæfileika köngulóa - áhugaverður, koffínvefurinn.