Hugi Þórðarson

IKEA

Ég fór í IKEA í dag. Alltaf gaman að þræða völundargangana í þessu gímaldi, ég get aldrei varist þeirri tilhugsun að ég sé mús í einhverri grimmdarlegri rannsókn sænskra sálfræðinema og að það hljóti að vera risastór ostur við útganginn.

Það þyrfti að skipta út skiltinu við innganginn á versluninni og þar sem ég er hjálpsamur maður legg ég hér með fram tillögu að texta á það:

"Velkomin í IKEA, þar sem mottóið er "The journey is the reward". Þessi verslun var hönnuð af M.C. Escher og í þeim víddum sem þú getur skynjað er aðeins ein útgönguleið. Hún er tvo metra til vinstri við þig núna, á bak við vegg úr skotheldu gleri, en til að tryggja að þú missir ekki af einni einustu vöru sem við seljum höfum við hannað verslunina þannig að þú þarft að ganga fjórtán kílómetra til að komast að henni. Ef þú finnur hana.

Þar sem það var vandamál að fólk var að deyja úr hungri á leiðinni út settum við matsölu á miðja leiðina. Þar er hægt að kaupa ljúffengan mat á borð við sænskar kjötbollur sem innihalda margt skemmtilegt, vöfflur með sænsku rjómalíki sem við búum til úr Norðmönnum og steikt svínakjöt í "raspi" (gæsalappirnar eru hluti af vöruheitinu).

Ef þú komst hingað til að kaupa pakka af ljósaperum eða einn borðlampa og ert núna að spyrja sjálfa(n) þig vonleysislega "Hvers vegna þarf ég að ganga í gegnum sófadeildina" þá höfum við aðeins eitt við þig að segja: SUCKER!.

Vinsamlegast ekki reyna að stytta þér leið í gegnum verslunina. Eftirlitsmyndavélar fylgjast með hverri hreyfingu þinni og sjálfvirku TROMPEN-vélbyssurnar okkar (sem eru einmitt á tilboði núna) sjá til þess að þeir sem það reyna enda sem hráefni í ljúffengar sænskar kjötbollur.

Að lokum, ef þú eignast barn á leiðinni út eða þarft að halda upp á stórafmæli, þá viljum við benda á að PRUMPEN-partýhattarnir okkar hressa ærlega upp á stóru stundirnar í lífinu.

Takk fyrir að versla í IKEA. Ef þú sleppur lifandi, þá vonumst við til að sjá þig aftur sem fyrst".