Hugi Þórðarson

Unaðsilmur

Jæja, þá er búið að aflýsa hættuástandi hjá neyslustýringarnefnd koffínsviðs fíknideildar heilans í mér og ég er smátt og smátt að verða að sjálfum mér aftur. Reyndar aðeins minna geðsýkislega hlæjandi, skrykkdansandi útgáfu af mér, en þó mér.

Ég sé nú þegar geðklofinn fer dvínandi að koffínið var farið að stór-há mér, ég var farinn að gera tóma vitleysu, jafnvel farinn að gefa kvenþjóðinni auga, sem ég var annars búinn að sverja alveg af mér í bili. Enda hamingjusamasti piparsveinn í hinum þekkta alheimi.

Það sem ég er samt ánægðastur með er að vera laus við koffínhrifin úr svitanum af mér. Síðustu daga er búið að vera blómstrandi vor í handarkrikunum á mér, þannig að ég á hreinlega erfitt með að ganga ekki um allan daginn með höfuðið á mér límt undir handleggina. Það er gleðileg umbreyting frá skólpinu sem áður streymdi þar fram, mér og öðrum til lítillar ánægju.

Lexía dagsins: Ef þú vilt lykta eins og ferskur jarðarberjabúðingur, takmarkaðu kaffidrykkjuna.