Hugi Þórðarson

Rauðhærða dýrið á næsta velli

Fór í badminton í gær. Eftir harða viðureign við andstæðinginn teygði ég mig í vatnsflöskuna mína og fékk mér sopa. Parið á næsta velli horfði á mig stórum augum - líklega ekki vant rauðhærðum, hugsaði ég.

Eftir leik númer tvö teygði ég mig aftur í vatnsflöskuna. Enn stækkuðu augum á parinu.

Það var ekki fyrr en nálægt lokum tímans, þegar ég var búinn að teyga megnið af flöskunni, sem maðurinn á næsta velli hóstaði vandræðalega og sagði, "hérna, afhverju ertu að drekka vatnið okkar".

Og viti menn, vatnsflaskan mín reyndist vera hinumegin við völlinn. Full. En hvers vegna fólkið lét sér nægja að horfa vandræðalega á mig á meðan ég þambaði vatnið þeirra skælbrosandi veit ég ekki. Ætli ég sé svona ógnvekjandi, verandi næstum því 1.80 á hæð og með líkama eins og jarðýta? Eða a.m.k. gaffallyftari? Eða snjóskófla?

En.... Ég gleymdi að spyrja fólkið hvaða hræðilegu sjúkdómum ég gæti átt von á að smitast af og sit núna og bíð spenntur eftir einkennum.