Hugi Þórðarson

Bensín

Í gær tók ég eftir því að bíllinn minn var um það bil að verða bensínlaus og hugsaði með mér "Hugi: Mundu að taka bensín". Og auðvitað mundi ég eftir því - þegar ég var á leiðinni heim úr badminton áðan og vélin byrjaði að hósta eins og astmasjúklingur á lokastigi á miðri Miklubrautinni.

Leiðinleg saga, svo hér er stutta útgáfan

Kom bílnum að vegamótum Skógarhlíðar og Suðurlandsbrautar áður en vélin þambaði hestaskálina. Steig út í veður sem hefði getað gert kulsækinn eskimóa dapran.

Hóf hressingargöngu að Skeljungi við Suðurlandsbraut. Stöðin var lokuð þegar ég kom þangað og það gladdi mig svo mikið að ég hoppaði upp og niður og reytti hár mitt í dágóðan tíma af einskærri hamingju.

Tók stefnuna á Esso við Borgartún. Þegar ég komst þangað var andlitið á mér fokið aftur á hnakka og frosið fast þar. Geirvörturnar á mér sáust í gegnum vindstakkinn.

Gekk aftur að bílnum og meðan ég hellti bensíninu á hann horfði fólk á mig úr nærstöddum bílum og hló að mér. Ég gladdist yfir að geta veitt örlítilli gleði í líf þeirra. Mér finnst svo gaman að gefa.

Keyrði á bensínstöðina, uppgötvaði mér til ómældrar ánægju að ég hafði gleymt bensínlokinu, keyrði til baka syngjandi af gleði og sótti það, keyrði aftur á bensínstöðina og borgaði aleiguna fyrir bensínfylli. Kominn heim rétt fyrir miðnætti.

Og nú sit ég hér undir flísteppi og sæng og reyni að nudda hita í ískaldan líkamann. Það ætlar að ganga illa.

Hljóma ég nokkuð bitur? Nei, ég hélt ekki.