Það sóttu að mér þungar hugsanir í fyrrinótt og ég átti ekki möguleika á að sofna. Ég horfði á svefnherbergisloftið þar til ég datt út í nokkrar mínútur í morgunsárið en vaknaði svo með andfælum eftir nokkrar mínútur við skelfilegt slys (í draumi). Þá hætti ég baráttunni við vökuna, reif mig á fætur og fór að vaska upp og svara tölvupósti.
Ég er almennt friðsæll og glaðlyndur maður en eitt getur gert mig skapvondan: Svefnleysi. Ég var þess vegna eins og myglaður forhúðarostur í skapinu í gær þótt vonandi hafi fáir tekið eftir því, þar sem ég reyni almennt að láta ekki eigin fyrirtíðarspennu bitna á öðrum. En játa fúslega að það mátti litlu muna að ég brygði út af vananum í gær og myrti alla í blokkinni með öxi.
Ég kom heim úr vinnunni um miðjan dag til að leggja mig og komst þá að því að ég hafði í fjarveru minni eignast nýja nágranna sem voru að stunda smíðar af miklu morgundagsleysi í nýju fínu íbúðinni sinni. Eða hugsanlega, af hávaðanum að dæma, að hefja framkvæmdir við nýja Sundabraut.
Þegar ég var búinn að liggja í klukkutíma og reyna að sofna undir framkvæmdahljóðunum - og éta koddann minn í þreytupirringi - fór ég á fætur, fór í sund, eldaði, spilaði á píanóið, þambaði kamillute, lagði kapal, reyndi að lesa, fór í bað og gerði, að ég held, alla aðra róandi hluti sem hægt er að lesa um í Stóru Bókinni Um Róandi HlutiTM. En ekki gat ég sofnað og áfram héldu hljóðin. Sag-sag-sag, hamr-hamr-hamr-sag, bankitíbankbonk-dynk-sag o.s.frv.
Upp úr klukkan 22:00 sat ég einn í stól í horninu á myrkvaðri íbúðinni minni, starði út í loftið, brosti breitt, og rak reglulega upp hlátursgusur. Sem eftir á að hyggja er ekki mjög heilbrigt. Þegar látunum hjá Bubba Byggi (eins og nýi nágranni minn heitir hér eftir) linnti um miðnætti lagðist ég svo út af og rotaðist samstundis, þá búinn að vera vakandi í rúma 50 tíma, og svaf til hádegis í dag. Fyrsti draumlausi svefn sem ég man eftir að hafa upplifað í ansi langan tíma.
Ég lærði þrennt af þessu:
Býð annars nýju nágrannana alveg afskaplega velkomna. Megi Sundabrautin þeirra verða glæsileg.