Hugi Þórðarson

Uppgötvun

Það er magnað hvernig undirmeðvitundin getur farið með mann, og hvernig maður getur stöðugt verið að uppgötva þar undarlegar leifar frá bernsku.

Þegar ég fer á fætur á morgnana vippa ég mér alltaf fimlega framúr og lendi a.m.k. metra frá rúminu. Sama geri ég þegar ég fer að sofa á kvöldin, en þá stekk ég upp í rúm, og ég er að tala um alvöru stökk því ég tek stutt tilhlaup og læt mig svo vaða á ferðinni í tignarlegum boga (sem er hluti skýringarinnar á því hversvegna ég er einhleypur, því ef einhver er nógu óheppin til að verða fyrir mér þar þá er eins gott að viðkomandi hafi sterk sterk bein og góðar tennur).

Ég hef alltaf álitið þetta sjálfsagt og aldrei velt fyrir mér hvers vegna ég breytist í kengúru eftir miðnætti, en í gærkvöldi fór ég að íhuga þetta þar sem ég lá í rúminu og nuddaði tognaðan axlarvöðva eftir síðasta rúmstökk. Og þá gerði ég merkilega uppgötvun.

Það sem ég uppgötvaði var að heilinn í mér (sem ég tala alltaf um í þriðju persónu því hann er snargeðveikur, lifir algjörlega í sínum eigin heimi og ég vil ekkert hafa með hann að gera) virðist nokkuð viss um að undir rúminu mínu sé skrímsli. Og ef ég fer of nálægt því gæti það teygt sig undan rúminu og gripið í fótinn á mér.

Ég varð fremur hissa á þessari persónulegu hugljómun, hugsanlega vegna þess að ég er ekki fimm ára. Ég ákvað að sannreyna þetta, teygði annan fótinn varlega úr rúminu og tyllti honum á gólfið við hliðina á því og viti menn, samstundis greip mig gríðarleg ónotatilfinning svo ég kippti honum strax aftur upp.

Ég lá í keng og hló að mér í smá stund og íhugaði svo málið aðeins. Loks varð ég pirraður, muldraði við sjálfan mig "Þetta er nú meiri fjandans vitleysan", svipti af mér sænginni, fór á fætur og stillti mér upp með þrjóskusvip.

Og þannig, kæra dagbók, atvikaðist það að klukkan hálf-eitt í nótt stóð ég nakinn í myrkrinu við hliðina á rúminu mínu og sannaði þar með að skrímsli eru ekki til. Held ég.