Hugi Þórðarson

Atferlisrannsókn

Úr því ég er búinn að rífa lokið af ormagryfjunni og byrjaður að viðra þann siðlausa viðbjóð sem á sér stað í búningsklefum karlmanna um allan bæ, þá er líklega rétt að klára dæmið.

Í búningsklefum karla eru oft naktir karlmenn, það vita flestir. Nema þeir sem lifa mjög vernduðu lífi.

Við mannlífsrannsóknir mínar í þessum búningsklefum hef ég tekið eftir mörgu merkilegu, en þó sérstaklega einu sem mér finnst alveg gríðarlega áhugavert. Það er að í hvert skipti sem karldýr mætir öðru nöktu karldýri, þá virðast augu þess svo að segja undantekningalaust alltaf hvika í sekúndubrot niður á milli fótanna á hinu dýrinu.

Ef þið trúið þessu ekki, þá legg ég til að þið gerið ykkur ferð í næsta búningsklefa og framkvæmið ykkar eigin rannsókn. Athugið samt að ef tilraunin á að takast verður rannsakandi að vera karlkyns því ef hann ert kvenkyns munu flestir í klefanum missa allan áhuga á kynfærum kynbræðra sinna og hafa augun límd við rannsakandann.

En nú spyr ég, hver er ástæðan? Stundar kvenfólkið það sama? Þekkist þetta meðal annarra dýra eða erum við mennirnir einir um að heillast af bókstaflegum limaburði kynbræðranna?

Ég ætla að demba mér í sund á næstunni og reyna að komast að því á hvaða aldri þessi árátta hefst. Og þegar ég sé næsta mann gera úttekt á settinu á mér, þá ætla ég að brosa til hans, horfa fast í augun á honum og spyrja "Ertu sáttur við það sem þú sérð, elskan?".