Hugi Þórðarson

Føroya raekja

Ég lá í makindum mínum áðan og var að gæða mér á sleikipinna og lesa Vikuna þegar dyrabjallan hringdi. Sem mér þótti undarlegt, því ég er ekki með dyrabjöllu. En það er önnur saga.

Ég fór til dyra og þar stóð maður, enda er það venjan þegar dyrabjallan hringir, jafnvel þótt maður sé ekki með dyrabjöllu. Tvennt vakti strax athygli mína. Í fyrsta lagi hvað maðurinn líktist Jude Law óhugnanlega mikið. Við erum að tala um að hann leit bara nákvæmlega eins út og Jude Law. Það var eins og Jude Law hefði verið ljósritaður, nema í ljósritunarvél sem skilar ekki pappír, heldur fólki sem er nákvæmlega eins og Jude Law.

Hitt sem vakti athygli mína var var að maðurinn var með fangið fullt af kössum með myndum af rækjum á og á þá stóð skrifað klunnalegum prentstöfum "Føroya raekja, ofboðslega gott raekja, namm namm, betri en venjulegt raekja". Lyktin sem barst frá kössunum var... Vafasöm.

Maðurinn brosti glaðlega til mín, ræskti sig og kynnti sig svo á skelfilegu hrognamáli sem rækjusölumann, kvaðst vera að selja bestu rækjur í heiminum og sagði að ég bara yrði að kaupa af honum rækjur. Svo tók hann rækju úr vasanum og bauð mér að smakka.

Ég horfði forviða á rækjumanninn í nokkrar mínútur (talandi um langar vandræðalegar þagnir) gagntekinn af því hvernig hann leit út eins og Jude Law hefði snýtt honum úr nösinni á sér, nema ekki snýtt tóbakslegi heldur Jude Law, afþakkaði svo pent og sagði honum að hypja sig í burtu. Svo skellti ég hurðinni á nefið á honum. Hann hrópaði í gegnum dyrnar (umritað á íslensku) "En þær eru rosalega góðar - ég get líka komið inn og búið til rækjukokteil ef þú vilt það frekar". Ég hunsaði hrópin, setti háværan djass á fóninn og horfði svo á manninn í gegnum gægjugatið.

Hann stóð með vonarsvip fyrir utan hurðina í dágóðan tíma, en svo kom skeifa á andlitið á honum, hann varð niðurlútur og ég heyrði hann tauta við sjálfan sig "Enginn kaupa rækjur á Íslandi, voða skrítnir íslendingar".

Hann leit vonleysislega í kringum sig og fór svo upp stigann á þriðju hæð þar sem hann bankaði á hurðir. Ég heyrði að ein hurðin var opnuð - og síðan hef ég ekki heyrt meira í honum.