Hugi Þórðarson

Furðulegt

Ég er búinn að sitja forviða við eldhúsborðið síðustu tvo klukkutímana og fylgjast með manni í ljótum jogginggalla grafa risastóra holu úti í garði.

Ég get ekki ímyndað mér hvað honum gengur til, vissi ekki að til stæði að fara í framkvæmdir við garðinn, en ég hef aldrei séð mann grafa af öðrum eins eldmóði. Fyrir hálftíma virtist hann örmagnast og skreið upp úr holunni og lagðist á bakkann, en þá kallaði kvenmannsrödd "haltu áfram að grafa!". Hann stökk á fætur og nú grefur hann tvöfalt hraðar en áður. Ég er hættur að sjá í hann, sé bara gusur af mold frussast upp úr holunni á þriggja sekúndna fresti.

Ég er að spá í að fara út og bjóða honum límonaði, ég hef stórar áhyggjur af honum.