Hugi Þórðarson

Endalausar smíðar

Nú er ég alveg að missa þolinmæðina yfir þessum stöðugu smíðum hérna í blokkinni.

Hamagangurinn byrjaði fljótlega eftir að ég henti rækjusölumanninum út í dag og hefur verið reglulega í gangi fram eftir öllum degi. Núna er reyndar verið að smíða í annarri íbúð en síðast og mun nær mér, því drunurnar eru óskaplegar. Múrhúðin er farin að brotna úr loftinu á íbúðinni og flestar myndirnar eru hrundar af veggjunum.

Og þessi smiður er ótrúlegur. Hann hamrar og hamrar og hamrar, stöðugum, taktföstum höggum og gleðst svona líka rosalega þegar hann er búinn að smíða eitthvað og rekur þá upp hávær hamingjuóp. Ég vildi að ég hefði svona gaman af vinnunni minni.

Konan hans er greinilega líka að smíða með honum og ekki minna ánægð með árangurinn, en hún er virðist vera mjög trúuð því hún ákallar Guð hástöfum í næstum hverju höggi. Einmitt það sem ég þurfti - trúarofstækisfólk í næstu íbúð.

Ég hef hreinlega áhyggjur af ástandinu því smiðurinn er greinilega með slæman astma og másar og stynur við hvert hamarshögg. Ég skil bara ekki af hverju svona augljóslega veikur maður leitar sér ekki að rólegra starfi. Ég hugsa að ég banki upp á og bjóðist til að hjálpa honum að sveifla hamrinum. Eða handlangi fyrir hann verkfæri.