Hugi Þórðarson

Nú er ég alveg hlessa

Furðulegheitin ætla engan enda að taka í þessari blessuðu blokk.

Ég kláraði loksins Vikuna í gærkvöldi, þrátt fyrir ítrekaðar truflanir þegar trúaða fólkið sem er að smíða á efri hæðinni byrjaði að bera upp búslóðina sína. Svo ótrúlega sem það hljómar, þá heyrði ég ekki betur en að þau létu smiðinn með astmann hjálpa sér og karlgreyið var alveg að sálast úr mæðu. Það mætti halda að það væri verið að refsa honum, kannski hefur hann klúðrað einhverju í smíðunum. Ég skil það samt ekki, því háværa konan hans hrópaði á hann tíu í einkunn fyrir allt sem hann smíðaði.

En jæja, seinna um kvöldið ætlaði ég að fara út með ruslið, og hvað sé ég þegar ég kem fram annað en slóð sem lá frá útidyrunum og upp alla stigana - og af hverju? Jú, fötum. Hugsið ykkur bara, það hefur einhverjum legið alveg rosalega á að komast upp til sín, líklega á klósettið, svo hann hefur misst öll fötin sem hann var í.

Ég fór niður með ruslið og gekk svo upp stigana og tíndi upp öll fötin. Og hvar haldið þið að slóðin hafi endað, annarsstaðar en við dyrnar hjá Frú Vigdísi, blessaðri, sem býr við hliðina á Önnu!

Ég hagræddi fatabunkanum í fanginu og hringdi bjöllunni hjá Frú Vigdísi. Dyrnar opnuðust fljótlega og í gættinni stóð Frú Vigdís brosandi í bleikum náttslopp með fálkaorðuna í kraganum. "Nei Hugi minn, ert þetta þú. Æ, en gott að þú skyldir koma, ég var einmitt að klára nýtt ávarp og bráðvantar að vita hvað þér finnst. Viltu ekki koma inn og fá þér kaffi og kleinur?".

Ég hóstaði vandræðalega og sagðist vera á hraðferð, en rétti fram fatabunkann sem ég var með í fanginu og spurði hvort hann hefði misst þetta. Til áhersluauka tók ég rauðan þveng úr bunkanum og lyfti upp með fingrinum.

Frú Vigdís horfði á mig tómum augum. "Nei vinur, ég er alveg hætt að ganga í þvengjum, þeir skerast svo skelfilega upp í [ritskoðað]". Hann átti ekki fötin.

Og nú sit ég hér alveg gat og drekk te og horfi á dularfulla fatabunkann sem liggur á eldhúsborðinu. Hvað er í gangi hérna, hver skilur eiginlega eftir svona fín föt á ganginum? Ég hef þó lagt saman tvo og tvo og veit að það hlýtur að vera klæðskiptingur, því hann gengur í kvenmannsfötum undir venjulegu fötunum sínum.