Hugi Þórðarson

Hver leigir svona?

Þegar ég renndi í hlaðið eftir að ég kom heim úr vinnunni í dag mætti mér hræðileg sýn.

Í stæðinu mínu - stæðinu MÍNU - var þessi líka skelfilega, skelfilega bleiki Yaris. Við erum að tala um svo hræðilega, ótrúlega bleikan Yaris að ég byrjaði að kúgast um leið og ég sá hann og áður en ég náði að stöðva bílinn kastaði ég upp ofan í badmintontöskuna mína, og það yfir nýjasta eintakið af Brúðkaupsblaðinu Já sem var efst í henni.

Við þessi óvæntu átök rykkti ég stýrinu óvart til hægri, steig á bensíngjöfina og ók á fullri ferð beint á bleika fyrirbrigðið. Þýska skriðdrekastálið í bílnum mínum skaddaðist ekkert, rispaði bara stuðarann aðeins, en Yarisinn fór algjörlega í klessu. Hann leit út eins og hræðilegt slys í aðgerð hjá kvensjúkdómalækni, bara stór, bleik hrúga.

Ég hugsaði málið aðeins, lagði bílnum mínum svo varlega við hliðina á hrúgunni, læddist út, setti stút á munninn og bjó mig undir að ganga blístrandi í burtu. En þá tók ég eftir að Frú Vigdís var að fylgjast með mér úr glugga - og hann var með alvörusvip á andlitinu. Ég veifaði vingjarnlega til hans, skrifaði svo "Fyrirgefðu" á lítinn miða og setti ofan á bleiku hrúguna.

Ég leit aftur upp í gluggann í von um að þetta væri nóg. En Frú Vigdís hristi höfuðið með vanþóknunarsvip. Hann var sko ekki sáttur. Þá andvarpaði ég og hringdi í lögregluna.

Lögreglan var mætt á staðinn innan tíðar. Í löggubílnum sátu tveir menn og annar þeirra, þrekvaxinn lögregluþjónn, steig út úr bílnum og gekk að mér. "Hvert er vandamálið?" sagði hann þreytulega. Svo sá hann bleiku hrúguna og öskraði "JESÚS GUÐ ALMÁTTUGUR HVAÐ ER ÞETTA" og ældi yfir sig.

Þegar hann var staðinn upp aftur og hættur að kúgast þurrkaði hann sér um munninn með handarbakinu og sagði "Hemm. *skyrp*. Venjulega þyrfti ég að taka af þér skýrslu en ég ætla að sleppa þér með áminningu, Mér sýnist þú hafa gert samfélaginu greiða". Svo öskraði hann á hinn lögregluþjóninn "Geir hringdu á dráttarbíl". Hann leit aftur á hrúguna og sagði svo hugsi "Eða nei annars, hafðu það vörubíl. Með krana".

Svo tók hann í höndina á mér og þakkaði mér kærlega fyrir að fjarlægja þetta ökutæki úr umferð. Og þar með var mínum afskiptum af málinu lokið. Þrekvaxni lögregluþjónninn hringdi þó í mig áðan til að segja mér að þetta var bílaleigubíll og fulltryggður - þannig að ég fæ frían tússpenna frá tryggingunum til að tússa yfir rispuna á stuðaranum. En það merkilega er að bíllinn var tekinn á leigu af karlmanni, hugsið ykkur bara. Vá hvað sá náungi er flaming. En greinilega húmoristi, því hann leigði bílinn á nafninu "Ken". Hann svaraði ekki í símann í dag þegar reynt var að ná í hann - en það hefði ég líklega ekki heldur gert ef ég hefði leigt þennan bíl.

En einmitt núna hef ég minnstar áhyggjur af bleika Yarisnum. Garðurinn hérna fyrir utan er að fyllast af alvarlegu fólki, gónandi ofan í holuna sem duglegi verkamaðurinn frá því í fyrradag gróf. Og ég sé ekki betur en að sjónvarpið sé mætt á staðinn líka.