Hugi Þórðarson

Zappa

Ég fór á tónleikana "Zappa plays Zappa í gær". Seiðmagnaðir tónleikar svo ekki sé meira sagt. Tónlistin ótrúleg og spilararnir ískyggilegir. Maður bara veit að maður er á góðum tónleikum þegar karlkyns trompetleikari byrjar að flengja kvenkyns saxófónleikara í miðju gröðu fönklagi.

Tónleikagestir voru fyrst og fremst virðulegir miðaldra karlmenn sem höfðu greinilega margir farið upp á háaloft og dregið gömlu rokkgallana upp úr mölkúluhrúgum fyrir kvöldið. Á leiðinni að sætinu mínu taldi ég fjórar kvenkyns lífverur innan um karlamergðina - og þá er ég að telja stelpuna sem tók við miðanum mínum með.

Þegar ég kom að sætinu mínu reyndist vera fjall í næsta sæti. Ég settist við hliðina á því og þurfti að setja 90° skekkju á hrygginn til að komast fyrir. Mér brá svolítið þegar fjallið bauð mér gott kvöld. Ég beygði hálsinn til að líta upp og sá þá að efst á fjallinu var höfuð. Fjallið var klætt í leðurgalla sem hefur líklega kostað nokkur bjarndýr lífið og lyktaði kröftuglega af austrænum lækningajurtum.

Ég ræskti mig kurteislega og bryddaði upp á samræðum. "Það er ekki mikið af kvenfólki hérna í kvöld" sagði ég. Höfuðið á fjallstoppnum horfði rannsakandi á mig rauðsprengdum augum. Svo sagði það "Veistu hversvegna pussuhlutfallið hérna er svona lágt?". Ég starði upp á fjallstoppinn og hristi höfuðið þögull með munninn opinn. Mér leið eins og ég væri fimm ára og væri að hitta geimveru í fyrsta skipti. "Þær eru ekki nógu gáfaðar til að skilja þessa tónlist - hún er of flókin fyrir þær, skilurðu. Vitlausar þessar pussur. Heh.". Ég gleypti í mér barkakýlið. Þetta var hvorki staður né stund fyrir menntaðar umræður um Hjallastefnuna.

En já, Zappa er flottur. Þeir eru að spila aftur í kvöld, ég veit ekki hvort er uppselt - en ef ekki - skellið ykkur!